Verulega verður fækkað í flugflota WOW air, samkvæmt heimildum Víkurfrétta, en í umfjöllun miðilsins kemur fram að félagið muni þurfa að leggja átta af tuttugu þotum sínum. Þetta muni vera hluti af breytingum sem þurfi að gera vegna kaupa Icelandair Group á öllu hlutafé í WOW air.
Í fréttinni segir að það liggi fyrir að WOW air og Icelandair séu með marga sömu áfangastaði bæði austan hafs og vestan og þar séu möguleikar á samnýtingu leiðakerfis.
Ekki sé vitað hvaða áhrif fækkun í flugflotanum muni hafa á Keflavíkurflugvelli. Fækkun í flota WOW air um þriðjung muni því án efa hafa áhrif á fyrirtæki sem annast margvíslega þjónustu við vélarnar.
Í frétt Kjarnans þann 5. nóvember síðastliðinn kom fram að stjórn Icelandair Group hefði gert kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air. Kaupin voru meðal annars gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.
Í tilkynningu frá Icelandair Group vegna kaupanna kemur fram að sem gagngjald fyrir hlutafé WOW Air muni hluthafar WOW air, að uppfylltum skilyrðum, eignast alls 272.341.867 hluti eða sem samsvarar um 5,4 prósent hlutafjár Icelandair Group eftir viðskiptin. Þar af séu 178.066.520 hlutir eða sem nemur 3,5 prósent hlutafjár gagngjald fyrir hið selda hlutafé. Það gagngjald geti hækkað í 4,8 prósent og lækkað í 0,0 prósent út frá ákveðnum forsendum í tengslum við áreiðanleikakönnun. 94.275.347 hlutir eða sem samsvarar 1,8 prósent hlutafjár séu gefin út til seljenda vegna breytingar á víkjandi láni í hlutafé. Seljendur hafi skuldbundið sig til að halda hlutum sínum í Icelandair Group í að minnsta kosti 6 mánuði og helming hlutanna í að minnsta kosti 6 mánuði til viðbótar.