Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, endurgreiddi skrifstofu Alþingis 178 þúsund krónur vegna ferða sem honum hafði verið endurgreiddar á síðasta ári. Þetta gerði hann vegna þess að honum hafi orðið það ljóst „að það gæti orkað tvímælis að blanda saman ferðum mínum um kjördæmið og ferðum á sama tíma með tökufólki ÍNN“.
Ásmundur segir að hann hafi gert þetta að eigin frumkvæði „til þess að enginn vafi léki á því að rétt væri að staðið, enda vil ég alltaf koma rétt og heiðarlega fram“.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í bréfi Ásmundar til forsætisnefndar sem sent var 23. nóvember síðastliðinn.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að forsætisnefnd Alþingis telur ekki skilyrði til staðar fyrir því að fram fari almenn rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði þingmanna. Þá hefur forsætisnefnd komist að þeirri niðurstöðu að sú athugum þegar hefur farið fram á endurgreiddum aksturskostnaði Ásmundar ásamt skýringum Ásmundar á akstrinum, „leiði til þess að ekkert hafi komi fram sem gefi til kynna að hátterni hans hafi verið andstætt siðareglum fyrir alþingismenn“.
Taldi sig vera að slá tvær flugur í einu höggi
Í byrjun febrúar 2018 svaraði forseti Alþingis fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Píratar, um aksturskostnað. Í svari forseta var greint frá því hversu háar greiðslur þeir tíu þingmenn sem fengu hæstu skattlausu endurgreiðslurnar þáðu á síðustu fimm árum. Ekki var hins vegar greint frá nafni þeirra. Í tölunum mátti þó sjá að fjórir þingmenn sem þáðu hæstu endurgreiðslurnar fengu samtals 14 milljónir króna, eða tæplega helming allra endurgreiðslna vegna aksturs.
Skömmu síðar opinberaði Ásmundur í viðtali að hann væri sá sem hefði þegið hæstu greiðslurnar. Uppgefinn akstur hans var 47.644 kílómetrar á einu ári. Hann fékk alls 4,6 milljónir króna endurgreiddar, eða 385 þúsund krónur að meðaltali á mánuði, vegna keyrslu sinnar. Á meðal þess sem kom í ljós var að Ásmundur hafði fengið endurgreiðslur vegna ferða sem hann fór með tökufólki af sjónvarpsstöðinni ÍNN, sem var að taka upp sjónvarpsþætti um ferðir hans.
Slíkt orkar tvímælis. Vegna þess og að eigin frumkvæði, greiddi ég því skrifstofu Alþingis til baka þann 19. febrúar sl. 178.000 kr. vegna ferða sem mér höfðu verið endurgreiddar til þess að enginn vafi léki á því að rétt væri að staðið, enda vil ég alltaf koma rétt og heiðarlega fram.“
Í niðurlagi bréfsins segir Ásmundur að það sé rangt að halda því fram að hann fylgi ekki eða hafi ekki fylgt settum reglum þegar kæmi að ferðakostnaði vegna þingstarfa. „Það er sárt að sitja undir innihaldslausum ásökunum um óheiðarleika. Síendurteknar dylgjur af þv´itagi munu ekki koma í veg fyrir að ég haldi áfram að sinna starfi mínu sem þingmaður og halda trúnað við íbúa Suðurkjördæmis, eins og landsins alls.“