Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að stórar breytingar hafi átt sér stað á íslenska markaðnum á undanförnum árum. Fyrirtæki sem eru þar skráð séu meðal annars farin að afla sér hárra fjármuna á markaði til að kaupa önnur fyrirtæki og mikill áhugi sé á meðal smærri vaxtafyrirtækja á skráningu.
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar við Pál í þættinum 21 á Hringbraut í síðustu viku. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Staðan í íslensku Kauphöllinni er um margt óvenjuleg. Mörg fyrirtækjanna sem í henni eru hafa verið endurskipulögð eftir að hafa lent í fjárhagserfiðleikum og Kauphöllin síðan notuð til að koma þeim í nýtt eignarhald. Þá eru flest fyrirtækin sem skráð eru á markað þjónustufyrirtæki en ekki hugverksfyrirtæki sem þurfa aukið fjármagn til að halda áfram að vaxa.
Út frá stærð markaðarins höfðu þau verið sátt með 5-10 félög sem hefðu sótt um. „Nú er það svo að við erum með 17 félög sem taka þátt í þessu prógrammi í vetur. Þetta eru þekkingarfyrirtæki og vaxtarfyrirtæki eiginlega eingöngu. Smærri fyrirtæki sem þurfa að afla sér fjármagns.[...]Þarna hefur orðið að mínu viti merkileg breyting.“
Páll segir einnig að á síðustu 12-18 mánuðum hafi orðið ákveðnar breytingar á stöðunni á aðalmarkaði, sérstaklega eftir að gjaldeyrishöftum var aflétt. „Við sjáum innflæði erlends fjármagns. Reyndar hefur það minnkað í ár. Og jafnframt sjáum við að fyrirtæki eru farin að nýta sér markaðinn með öðrum hætti en var. Á síðustu tólf mánuðum höfum við séð fimm fyrirtæki afla sér um 30 milljarða á markaði til þess að kaupa önnur fyrirtæki eða hlut í öðrum fyrirtækjum. Þetta er gjörbreyting frá því sem var fyrir nokkrum árum.“