Viðskipti með bréf í Icelandair Group voru stöðvuð í morgun Það var gert að beiðni Fjármálaeftirlitsins. Beiðni um það kom klukkan 10:21 í morgun.
Icelandair Group tilkynnti í gær að tilkynnt var um að dótturfélag félagsins, Loftleiðir Icelandic, hefði ásamt íslenskum fjárfestum gert bindandi tilboð í 51 prósent hlut í ríkisflugfélaginu Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum. Kaupverðið er trúnaðarmál, það verður að hluta til greitt með vinnu sem starfsmenn Loftleiða Icelandic hafa þegar innt af hendi og hið keypta mun ekki verða hluti af samstæðureikningi Icelandic Group.
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem viðskipti með bréf í Icelandair Group eru stöðvuð, en það gerðist einnig þegar félagið tilkynnti um kaup á WOW air fyrr í mánuðinum. Þá voru viðskiptin reyndar ekki stöðvuð strax og virði bréfa í félaginu hafði hækkað um tugi prósenta áður en stöðvunin var framkvæmd. Þannig var málum ekki háttað í morgun og lítil viðskipti höfðu átt sér stað með bréf í Icelandair Group það sem af er degi, eða fyrir 25 milljónir króna. Bréfin höfðu hækkað um 1,88 prósent.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, ræddi stöðvun viðskipta með bréf í Icelandair vegna kaupana á WOW air í þættinum 21 á Hringbraut í síðustu viku. Þar sagði hann að það hefði aldrei komið til greina að stöðva viðskiptin með bréf í lengri tíma en gert var þann dag sem tilkynnt var um vænta yfirtöku. „Það er algjört prinsipp hjá okkur að stöðva viðskipti í eins stuttan tíma og hægt er. Það er einfaldlega svo mikil vernd í því fyrir þá sem eiga hlutabréf í skráðum félögum að vita af því að þeir geti ávallt selt sinn hlut. Þetta er svo mikilvægur hluti af réttindum hluthafa. Að okkar mati var engin forsenda fyrir því.“
Hægt er að horfa á stiklu úr þættinum hér að neðan.