Ráðuneyti, ríkisstofnanir og fyrirtæki á vegum hins opinbera borguðu tæpar 190 milljónir króna fyrir birtingu auglýsinga fyrstu tíu mánuði ársins. Tvö fjölmiðlafyrirtæki, útgáfufélag Fréttablaðsins og Árvakur útgefandi Morgunblaðsins, fengju samtals tæplega þriðjung fjárins sem hið opinbera eyddi í auglýsingabirtingar það sem af er ári. Frá þessu er greint á fréttavef Rúv í dag en upplýsingarnar má finna á vefnum Opnir reikningar.
Fréttablaðið og Morgunblaðið fá þriðjung
Kostnaður hins opinbera vegna auglýsingabirtinga var 188 milljónir fyrstu tíu mánuði ársins, þá er ekki talin með vinna við gerð og hönnun auglýsinga. Þar af fékk útgáfufélag Fréttablaðsins 37 milljónir króna greitt fyrir auglýsingabirtingar og Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins og mbl.is, 21 milljón króna. Samanlagt er það rétt tæplega þriðjungur allra auglýsingakaupa ráðuneyta, ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja á tímabilinu.
Ríkisútvarpið fékk greiddar rúmar tólf milljónir og Sýn, sem á Stöð 2, ýmsar útvarpsstöðvar og vefinn Vísi, fékk fimm milljónir greiddar fyrir auglýsingabirtingar ríkisins.
Auglýsingastofan Pipar er í þriðja sæti yfir þau fyrirtæki sem fá mest greitt fyrir auglýsingabirtingar, með átján milljónir. Það er vegna birtingarþjónustu fyrirtækisins við ríkisstofnanir, einkum Háskóla Íslands. Pipar sér um auglýsingakaup fyrir viðskiptavini og greiðslurnar dreifast því áfram á önnur fyrirtæki. Frá þessu er greint í umfjöllun Rúv.
Prentmiðlar fá enn mestu auglýsingatekjurnar
Í júlí fjallaði Kjarninn um hvernig prentmiðlar fá enn stærstu hlutdeild auglýsingatekna af öllum innlendum fjölmiðlum hér á landi, þrátt fyrir að hlutdeild þeirra hafi lækkað allnokkuð á síðustu fjórum árum. Prentmiðlar fengu mest auglýsingafé allra fjölmiðla á Íslandi í fyrra, samkvæmt ráðstöfun fimm stærstu birtingarhúsa landsins en þeir ná 28 prósent af öllum keyptum auglýsingum. Hlutdeild prentmiðlanna hefur þó minnkað samhliða auknu vægi innlendra vefmiðla, en í Evrópu eru vefmiðlar orðnir verðmætari auglýsendum en prentmiðlar. Þetta kemur fram í tölum Fjölmiðlanefndar.
Ríkið kaupir auglýsingar af sjálfu sér
Í umfjöllun Rúv er greint frá því að það eru fleiri en aðeins fjölmiðlar sem fá greitt fyrir auglýsingabirtingar heldur fær ríkið til dæmis sjálft ellefu milljónir af því fé sem stofnanir ríkisins greiða fyrir auglýsingabirtingar. Það er vegna auglýsinga í útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðsins. Alls námu greiðslur ríkisins fyrir birtingu auglýsinga í Stjórnartíðindum rúmlega tíu milljónum króna og tæpri milljón fyrir birtingar í Lögbirtingablaðinu á tíu mánuðum.
Ríkið keypti einnig birtingu auglýsinga á öðrum miðlum þar á meðal fyrir tæpar fjórar milljónir af símaskrárvefnum Já og AFA JCDecaux fékk greiddar rúmar 1.400 þúsund krónur fyrir birtingu auglýsinga á skiltum fyrirtækisins.
Tvö fyrirtæki sem gefa út fjölmiðla á ensku fengu greitt fyrir birtingu auglýsinga hjá ríkinu. 1,3 milljónir voru greiddar fyrir birtingar í Reykjavík Grapevine og MD Reykjavík sem gefur út Iceland Review og What‘s On fékk 3,4 milljónir.
Á landsbyggðinni virðist hið opinbera frekar auglýsa í dagskrárblöðum en fréttamiðlum, N4 og Ásprent Stíll fengu um tvær milljónir króna hvor vegna auglýsingabirtinga. Bæði fyrirtækin gefa út dagskrárblöð. N4 heldur einnig út samnefndri sjónvarpsstöð og Ásprent gefur út héraðsfréttablöðin Skarp og Vikudag.