„WOW air mun fækka í flota sínum um fjórar Airbus vélar. Þessi aðgerð er hluti af endurskipulagningu á rekstri félagsins en legið hefur fyrir að minnka þurfi flotann til þess að auka hagkvæmni, draga úr árstíðarsveiflu og hámarka arðsemi. Um er að ræða tvær Airbus A320 vélar og tvær Airbus A330 vélar sem ekki hefðu nýst sem skildi í vetraráætlun WOW air. Þá skal jafnframt taka fram að hagræðing þessi mun ekki hafa áhrif á áform WOW air um að fljúga til Indlands en flug þangað hefst 6. desember næstkomandi.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air.
Eins og greint hefur verið frá, og fjallað ítarlega um að vef Kjarnans í dag, þá er nú unnið að kaupum Icelandair á WOW, en óvíst er hvort að þau muni ganga eftir. Hluthafafundur hefur verið boðaður hjá Icelandair 30. nóvember, en ekki er víst að það takist að aflétta öllum fyrirvörum, eins og Icelandair hefur greint frá í tilkynningu til kauphallar.