Indigo Partners og WOW air hafa náð samkomulagi um fjárfestingu þess fyrrnefnda í WOW air, samkvæmt tilkynningu.
Í tilkynningu segir Bill Franke, einn eiganda Indigo (Managing Partner), að Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, hafi náð miklum árangri við að byggja upp WOW air og að hann hlakki til samstarfs við starfsfólk félagsins.
Eins og greint var frá í morgun þá féll Icelandair frá kaupum á WOW air, og lét forstjóri Icelandair, Bogi Nils Bogason, hafa eftir sér að áhættan í kaupunum hefði reynst meiri en reiknað hafði verið með, og því hefði verið ákveðið að hætta við kaupin.
Indigo Partners er meðal annars meðal eigenda flugfélagsins Wizz Air, sem flýgur til og frá Íslandi, og hefur verið með vaxandi umsvif hér á landi undanfarin ár. Félagið var stofnað árið 2003, af því er segir í tilkynningu, og hefur mikla reynslu af fjárfestingum í flugiðnaði. Félagið er stórt á alþjóðlegan mælikvarða, og hefur náð miklum árangri í fjárfestingum sínum flugiðnaði.
Undanfarnar vikur og mánuði hafa stjórnendur WOW air og forstjóri og eigandi félagsins, Skúli Mogensen, reynt að fjármagna félagið til lengri tíma, en fjárhagur félagsins hefur versnað til muna á skömmum tíma, að því er Skúli nefndi sjálfur í bréfi til skuldabréfaeigenda.
Versnandi ytri og innri aðstæður leiddu til þess að félagið stóð verr en þegar það fór í skuldabréfaútboð, og því er staða félagsins þrengri nú.
Höfuðstöðvar Indigo eru í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum.
Skúli Mogensen segist í sameiginlegri tilkynningu félaganna hlakka til samstarfsins, sem verði til góða fyrir starfsfólk og farþega félagsins.