„Maður hefur á tilfinningunni að ég sé orðið einn af aðalleikurunum í House of Cards, sem er svolítið skrýtið.“ Þetta sagði Inga Sæland, formaður fólksins, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem upptökur af drykkjufundi sex þingmanna, þar sem Inga var meðal annars harðlega gagnrýnd af hluta hópsins, voru ræddar. Fréttir upp úr upptökunum voru birtar á vefum Stundarinnar og DV í gærkvöldi.
Inga segir að ummæli Bergþórs Ólasonar, þingflokks Miðflokksins, sem heyrist á upptökunni kalla hana „húrrandi klikkuðu kuntu[...]sem þið ráðið ekki við“, dæma sig sjálf. Hún sé vön því að vera í mótlæti, hafi meðal annars verið lögð í einelti, og taki ekki svona ummæli nærri sér. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, hefur þegar beðið Ingu afsökunar og hún segist taka þá afsökun gilda. Á upptökunni heyrist hann efast um hæfileika hennar til að leiða flokkinn. Inga segist ekki hafa heyrt þetta áður. Varðandi tilhneigingu hennar til að tárast eða gráta, sem töluvert er rædd á upptökunni, segist hún beygja af þegar hún finni fyrir hinni þykku spillingu sem einkenni stjórnmálin. „Hvað sem öðrum finnst um mig þá er ég að minnsta kosti trú og trygg mínum kjósendum.“ Hún sé ekki í þessari vegferð fyrir sjálfa sig.
Miðflokkurinn má „éta það sem úti frýs“
Inga segir málið allt saman sorglegt og enn sorglegri séu viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Hann var einn fjögurra þingmanna þess flokks sem sat við drykkju á umræddum hittingi og tók virkan þátt í umræðum þar sem rætt var með niðrandi hætti um m.a. aðra stjórnmálamenn og konur. Sigmundur Davíð birti stöðuuppfærslu í gær þar sem hann fjallaði ekki efnislega um neitt sem fjölmiðlar höfðu birt úr upptökunum en sagði það alvarlegast í málinu „ef raunin er sú að á Íslandi sé farið að stunda hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna. Hafi verið gerð hljóðupptaka af fundi þeirra sex þingmanna sem þar eru nefndir hlýtur það að teljast alvarlegt mál. Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði.“ Hann gaf einnig í skyn að hann vildi láta rannsaka fjölmiðla vegna þess að tal hans við þingmennina hafi verið tekið upp.
Telur ástæðuna andóf sitt gegn sjálftöku
Á upptökunum kemur einnig fram að forystumenn Miðflokksins reyndu mikið að fá þá tvo þingmenn Flokks fólksins sem sátu hittinginn til að koma yfir í sinn flokk. Ólafi Ísleifssyni er meðal annars lofað stöðu þingflokksformanns láti hann slag standa. Inga segir að það sé ánægjulegt fyrir Flokk fólksins að Miðflokksmenn vilji fá þeirra fólk yfir. „Mér finnst allt í lagi að þeir öfundi okkur pínulítið á því hvað við séum frábær.“
Í viðtalinu segir Inga einnig að hún telji að ummælin um sig, þar sem lítið er gert úr hæfileikum hennar til að stjórna og stunda stjórnmál, eigi rætur sínar að rekja til þess að hún hafi stundað andóf gegn sjálftöku þingmanna, sem hlaupi á milljónum króna. Það andóf hafi ekki mælst vel fyrir hjá sumum öðrum þingmönnum. Ekki kom fram nákvæmlega hvað hún ætti við þar, en bæði launahækkanir þingmanna upp á tugi prósenta og hækkanir á framlögum til stjórnmálaflokka, sem aukast um 127 prósent í ár, hafa verið harðlega gagnrýnd á undanförnum misserum. Flokkur fólksins var einn tveggja flokka sem skrifaði ekki upp á þá hækkun.