Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, telur að niðrandi ummæli þingmanna gagnvart stjórnmálakonum, sem komu fram í upptökum á samtölum þingmanna á Klausturbar, dragi fram hvernig karlar í valdastöðu tala um konur.
„Það sem mér finnst vera alvarlegt í þessu er að þarna eru menn í valdastöðum að tala mjög niðrandi um konur, uppnefna þær og nota uppnefni á kynfærum til þess að taka konur niður í umræðunni, og þetta er bara eitthvað sem á ekki að eiga sér stað og alls ekki á milli kjörinna fulltrúa,“ segir Oddný í viðtali við Stundina í dag.
Sendir skilaboð til kvenna í heild
Oddný segist persónulega vera slétt sama um ummæli Gunnari Braga um sig sjálfa en segir að þetta séu skilaboð til kvenna í heild og staðfesting á því að slíkt viðhorf gagnvart konum í stjórnmálum sé enn í fullu gildi og segir konur hafa í gegnum tíðina reynt að benda á þessa menningu. Oddný minnist einnig á að meðal þessara þingmanna séu ráðherrar sem hafa talað gegn þessari menningu en segir að þeim hafi greinilega ekki tekist að vinna í sjálfum sér hvað þetta varðar. „Og að þetta komi frá þingmönnum og fyrrverandi ráðherrum, eftir að við erum búin að eiga allar þessar um ræður um #metoo og heforshe,“ segir hún.
Hún segir þetta muni ekki auka virðingu almennings á Alþingi og geti jafnframt haft vond áhrif á samvinnu meðal þingmanna. Hún telur að til að breyta þessu leiðindamáli í eitthvað gott þurfi að ræða þessa menningu á Alþingi og uppræta hana fyrir fullt og allt.
„Ég get ekki séð fyrir mér að þessir menn sitji áfram á Alþingi Íslendinga“
Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólasson sögðu í upptökunum hafa meintar #Metoo sögur af Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, en þeir sögðu hana meðal annars hafa reynt að nauðga sér. Albertína sagðist vera kjaftstopp yfir ummælum þingmannanna í samtali við Stundina og segir að Gunnar Braga hafa hringt í sig og beðist afsökunar og sagt að þessar sögur þeirra væru ekki sannar. Í upptökunum heyrast þingmennirnir einnig tala illa um Ingu Sæland, þingmann Flokks fólksins, Oddnýju Harðardóttur og fleiri stjórnmálakonur. Þá má einnig heyra þingmennina gera grín að Freyju Haraldsdóttur.
Oddný segir að með þessum ummælum sínum gagnvart Freyju og Albertínu hafi þingmennirnir farið yfir „línuna stóru“. Hún sjái ekki að þeim sé lengur stætt á Alþingi Íslendinga, „Hvernig þeir ræða um Albertínu og Freyju Haralds er svo svakalegt að ég get ekki séð fyrir mér að þessir menn sitji áfram á Alþingi Íslendinga,“ segir Oddný í samtali við Stundina.
Þær Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem allar voru til umræðu á upptökunum sendu í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem þær fordæma ummælin sem látin voru falla á Klaustri bar og segjast líta þau alvarlegum augum.