Jón Trausti Reynisson ritstjóri Stundarinnar lýsti áhyggjum sínum af orðræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Miðflokksins, í tengslum við Klaustursupptökurnar í Silfrinu í morgun. Hann segir viðbrögð Sigmundar vera þekkta aðferð stjórnmálamanna til að „gengisfella gagnrýni“ og grafa undir fjölmiðlum. „Fyrstu viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru svolítið kunnugleg. Það er, að ráðast á fjölmiðla,“ segir Jón Trausti Reynisson.
„Ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers“
Daginn eftir að fyrstu fréttir af „klausturs-upptökunum“ voru birtar á vef Stundarinnar og DV, birti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, stöðufærslu um málið á Facebook-síðu sinni. Í stöðufærslunni segir hann að ef á Íslandi séu stundaðar hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna þá hljóti það að teljast alvarlegt mál. „Hafi verið gerð hljóðupptaka af fundi þeirra sex þingmanna sem þar eru nefndir hlýtur það að teljast alvarlegt mál. Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði,“ segir í stöðufærslunni.
Sigmundur líkir upptökunum við þegar útsendarar blaðsins News of the World hleruðu símtöl stjórnmálamanna og annars þekkts fólks. „Það athæfi var litið alvarlegum augum og gripið til aðgerða í samræmi við það. Ég vona að sú verði raunin á Íslandi líka. Annars eru íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag gjörbreytt,“ segir Sigmundur Davíð í stöðufærslu sinni.
„Þegar stjórnmálamenn skjóta sendiboðann“
Í Silfrinu gerir Jón Trausti athugasemdir við viðbrögð Sigmundar og segir ýmsan lærdóm hægt að draga af viðbrögðunum. „Hann byrjar strax að vísa í tilfelli frá Bretlandi þar sem fjölmiðlar voru saksóttir vegna hlerunarmála,“ segir Jón Trausti. „Þetta er einkenni á mjög óheilbrigðu ferli í umræðu í stjórnmálum, þegar stjórnmálamenn taka að skjóta sendiboðann.“ Jón segir þetta jafnframt vera leið sumra stjórnmálamanna út úr umræðunni, að „gengisfella gagnrýni“ með þessum hætti.
Jón Trausti bendir á að Sigmundur Davíð hefur gert árásir á fjölmiðla að sinni taktík. „Sami stjórnmálamaður hefur gert það að sinni helstu taktík, að hjóla í RÚV og koma fram með samsæriskenningar um RÚV og aðra fjölmiðla“.
Fanney Birna Jónsdóttir, þáttastjórnandi Silfursins, bendir á að þessar aðferðir sem Jón Trausti talar um hafi áður verið notaðar hér á landi sem og annars staðar í heiminum en hún bendir á að þetta virðist ekki hafa virkað í þetta skiptið hjá Sigmundi.
Jón Trausti vísar þá til lögbanns sýslumanns á Stundina og segir „það er bara ár síðan við fengum yfirvöld inn á ritstjórnarskrifstofuna hjá okkur,“ segir hann. „Þannig að nú þegar við erum ári síðar að fjalla um erfið mál í stjórnmálum, þá kallar stjórnmálamaður beinlínis eftir því að yfirvöld fari í okkur. Það er auðvitað óþægilegt og svona hálfpartinn ofbeldiskennt.“
„Ég vona að fólk greini sem mest þessi viðbrögð og sjái að þarna er ákveðin taktík sem er skaðleg,“ segir Jón Trausti að lokum.