„Fötluðu fólki er mjög brugðið og það er hrætt. Þarna er staðfesting á fordómum, og það er ógnvekjandi,“ segir Freyja Haraldsdóttir í viðtali við þáttinn 21 á Hringbraut, sem er á dagskrá í kvöld klukkan 21:00.
Í viðtalinu ræðir hún hið svonefnda Klausturmál og segir það sé alvarlegt mál, að sjá fordóma frá Alþingismönnum koma fram með þeim hætti sem samtöl sex þingmanna á Klaustur bar afhjúpuðu. „Þetta fólk sem ákveður hvort við fáum aðstoð, hvernig lífeyrisgreiðslum til okkar er háttað, hvort tekið sé á aðgengismálum. Þetta er fólkið sem er að líkja mér við sel og dauðan vegg,“ segir Freyja í viðtalinu.
Hún bendir enn fremur á, að þó þetta eigi ekki við um alla þingmenn, þá sé þetta 1/10 hluti þingmanna, sem þarna var að ræða saman, og það sé hátt hlutfall.
Tveir þingmenn Miðflokksins, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, hafa þegar farið í leyfi, vegna málsins, og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason hafa verið reknir úr Flokki fólksins. Auk þessara fjögurra þingmanna voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, og Anna Kolbrún Árnadóttir, einnig í hópnum sem ræddi saman, meðal annars með niðrandi hætti um konur í stjórnmálum.