Sveinn Margeirsson forstjóri Matís hefur látið af störfum eftir átta ára starf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórn Matís. Sjöfn Sigurgísladóttir formaður stjórnar Matís staðfestir í samtali við Kjarnann að honum hafi verið sagt upp og segir að samið hafi verið um starfslok.
Í tilkynningunni kemur fram að Oddur Már Gunnarsson hafi tekið við af Sveini og sé starfandi forstjóri Matís frá og með deginum í dag.
Að sögn Sjafnar er ástæðan fyrir uppsögn Sveins trúnaðarbrestur milli stjórnar og forstjóra.
Í samtali við mbl.is segir Sjöfn um afstöðu starfsmanna til uppsagnarinnar að mismunandi skoðanir hafi komið fram á starfsmannafundi. „Við héldum hérna starfsmannafund og það voru góðar umræður. Það voru einstaka aðilar [sem voru ósattir] en almennt held ég að fólk horfi fram á veginn,“ sagði Sjöfn í samtali við mbl.is.