Skúli Mogensen, eigandi WOW air, veðsetti heimili sitt, hótel á Suðurnesjum og fasteignir í Hvalfirði fyrir lánum frá Arion banka. Samtals er um að ræða 733 milljónir króna á tveimur tryggingabréfum sem Arion banki þinglýsti á fasteignir tengdum Skúla í september síðastliðnum. Þetta kemur fram í umfjöllun Stundarinnar í dag.
Veðsetti húsið sitt fyrir nærri 360 milljónir
Tryggingabréfinu var bæði þinglýst á eignir sem tengjast rekstri WOW air með óbeinum hætti, á hótel á Suðurnesjum sem félagið TF-KEF ehf. á, og eins á fasteignir í Hvammsvík í Hvalfirði sem Skúli Mogensen á í gegnum félagið Kotasælu ehf.. Tryggingabréfið á hótelinu á Suðurnesjum er á þriðja veðrétti á eftir tveimur tryggingabréfum frá Arion upp á samtals 650 milljónir króna sem hvíla á fyrsta og öðrum veðrétti, samkvæmt umfjöllun Stundarinnar.
Arion banki þinglýsti einnig nýju tryggingabréfi upp á 2,77 milljónir evra, 358 milljónir króna, á heimili Skúla á Seltjarnarnesi sama dag. Engin veðbönd hvíldu á húsinu fyrir þetta.
Samtals er því um að ræða tæplega 5,7 milljónir evra, 733 milljónir króna, á tveimur tryggingabréfum sem Arion banki þinglýsti á fasteignir tengdar Skúla í september.
Skúli fjárfesti 770 milljónir í skuldabréfaútboði WOW air
Í september 2018 stóð WOW air í skuldabréfaútboði í þeirri von að tryggja áframhaldi rekstur flugfélagsins. Þremur dögum áður en Skúli Mogensen undirritaði tryggingarbréfin á fasteignunum lauk skuldabréfaútboðinu.
Skúli tilkynnti skuldabréfahöfum WOW air í nóvember að hann hefði sjálfur fjárfest í skuldabréfaútboðinu fyrir 770 milljónir króna. Það var 1/12 af því sem safnaðist í útboðinu en alls söfnuðust 60 milljónir evra til að endurfjármagna WOW air að hluta.
Ekki fékkst svar frá Arion banka
Stundin hafði samband við Arion banka til að spyrjast fyrir um málið og hvort bankinn hefði veitt ný lán til Skúla á þessum tíma eða hvort bankinn hefði verið að taka frekari veð, og þar með tryggja stöðu, gagnvart Skúla á WOW air á þessum tíma. Í svari frá bankanum sagði að bankaleynd kæmi í veg fyrir að Arion gæti tjáð sig um viðskipti sín við viðskiptavini bankans. Stundin spurði Skúla Mogensen einnig að því hvort hann hefði fjármagnað þátttöku sína í skuldabréfaútboðinu með láni frá Arion banka. Skúli svaraði ekki fyrirspurn blaðsins, sem send var í tölvupósti.