Fræðafólk við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum segir að Klaustursmálið og ummæli þingmanna sem þar voru séu þeim „áfall og þungbært að verða vitni að þeim niðurlægjandi og fordómafullu ummælum sem þar voru viðhöfð um fatlað fólk, einkum fatlaðar konur sem við virðum mikils og eigum náið og gott samstarf við í baráttu fyrir mannréttindum og mannvirðingu fatlaðs fólks.“
Þetta kemur fram í bréfi sem fólkið sendi Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, í gær.
Þar segir enn fremur að þeir „djúpstæðu fordómar, mannfyrirlitning, hroki og vanvirðing sem þar birtast í garð fatlaðs fólks og annarra jaðarsetra hópa gerir það að verkum að við munum ekki taka þátt í samstarfi við velferðarnefnd Alþingis á meðan að Anna Kolbrún Árnadóttir á sæti í nefndinni.“
Undir bréfið skrifa Rannveig Traustadóttir, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarsetursins, Hann Björg Sigurjónsdóttir prófessor, James G. Rice lektor, Snæfríður Þóra Egilsson prófessor og Stefán C. Hardonk lektor. Afrit af bréfi þeirra var sent á alla fulltrúa sem sæti eiga í velferðarnefnd.
Kallaði fatlaða konu „Freyju eyju“
Anna Kolbrún Árnadóttir er starfandi þingflokksformaður Miðflokksins og einn sexmenninganna sem var viðstödd niðrandi samræður um stjórnmálamenn og annað nafngreint fólk á Klausturbar þann 20. nóvember.
Á upptökum af drykkjufundi þingmannanna, sem tilheyra Miðflokknum og Flokki fólksins, heyrast þeir gera grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmanni og þekktri baráttukonu fyrir bættum mannréttindum fatlaðs fólks, sem þjáist af sjaldgæfum beinasjúkdómi. Anna Kolbrún kallaði hana „Freyju eyju“ og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, gerði grín af því að tveir hinna mannanna við borðið hefðu sérstakan áhuga á Freyju og nafngreindri þingkonu Samfylkingarinnar. Einhver úr hópnum hermdi í kjölfarið eftir sem hljómar eins og selshljóð.
Anna Kolbrún hefur þegar tilkynnt að hún ætli ekki að segja af sér þingmennsku vegna málsins.
Stiklu úr viðtali við Freyju Haraldsdóttur um málið í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut má sjá hér að neðan.