Gott regluverk og öflugt eftirlit, hagkvæmni í bankarekstri og traust eignarhald fjármálafyrirtækja eru þær þrjár meginstoðir sem framtíðarsýn íslensks fjármálakerfis þarf að mótast af. Þetta er niðurstaða starfshóps sem skipaður var í febrúar til að vinna hvítbók um fjármálakerfið en hópurinn hefur lokið störfum og skilað skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra.
Frá þessu er greint í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Markmiðið með skipun starfshópsins var að skapa traustan grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni er varða fjármálakerfið, framtíðargerð þess og þróun. Mun fjármála- og efnahagsráðherra óska eftir því að efnt verði til umræðu á Alþingi um efni skýrslunnar í upphafi vorþings, auk þess sem hún verður tekin til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Einnig verður hvítbókin birt á samráðsgátt stjórnvalda og umsagna óskað um efni hennar. Í kjölfarið munu stjórnvöld vinna að tillögum um breytingar.
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins og hæstaréttarlögmaður er formaður hópsins, en auk hans sitja í honum Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður, lausfjáráhætta, fjármálafyrirtæki, á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð. Sylvía K. Ólafsdóttir, forstöðumaður hjá Icelandair var einnig skipuð í hópinn og starfaði með honum fram á haust.
Í frétt ráðuneytisins kemur fram að í hvítbókinni sé fjallað um þau stakkaskipti sem orðið hafa á regluverki um fjármálakerfi heimsins frá því alþjóðlega bankakreppan reið yfir. Það birtist meðal annars í alþjóðlegum reglum sem innleiddar hafa verið í svipaðri mynd hér á landi og í flestum þróuðum ríkjum heims.
„Dregið hefur verulega úr áhættu í íslenska bankakerfinu, bankar eru betur í stakk búnir að takast á við áföll, eftirlit er sterkara og viðbragðsáætlun hefur verið mótuð. Leggur starfshópurinn áherslu á að ákvörðun verði tekin um að draga varnarlínu vegna fjárfestingabankastarfsemi viðskiptabanka og að komið verði á fót miðlægum skuldagrunni sem nýttist stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum við að afla betri upplýsinga um skuldsetningu heimila og fyrirtækja. Einnig er bent á að virk samkeppni og öflugt aðhald viðskiptavina sé lykilforsenda þess að hagræðing skili sér til neytenda og lítilla fyrirtækja. Þessir þættir séu mikilvægir til þess að traust byggist upp að nýju á íslenska fjármálakerfinu,“ segir í fréttinni.
Í hvítbókinni er bent á að fjármálaþjónusta á sanngjörnum kjörum sé mikilvægt hagsmunamál heimila og fyrirtækja en í könnun sem gerð var fyrir starfshópinn nefndu svarendur lægri vexti og betri kjör oftast, þegar spurt var hvaða breytingar væru helst til þess fallnar að auka traust til bankakerfisins. Í þessu samhengi dregur hópurinn fram mikilvægi þess að gera greinarmun á vaxtastigi og vaxtamun. Háir útlánavextir endurspegla að nokkru leyti háa stýrivexti sem eru hluti af ytra umhverfi bankanna en skilvirkni í bankarekstri í vaxtamun og þjónustugjöldum.
Í skýrslunni kemur fram að smæð markaðarins, háir skattar og töluvert miklar eiginfjárkröfur valdi álagi sem hefur verið nefnt „Íslandsálag“. Markaðinn sé erfitt að stækka án aukinnar áhættu eða með því að breyta gjaldmiðilsfyrirkomulagi og eiginfjárkröfur ráðist af mati á ýmiskonar áhættu. Því sé erfitt að draga úr þeim kostnaði til skamms tíma litið. Hins vegar sé hægt að draga úr rekstrarkostnaði með auknu samstarfi um rekstur fjármálainnviða og lækkun sértækra skatta. Slíkar aðgerðir séu í höndum stjórnvalda og bankanna sjálfra en virk samkeppni og neytendavernd auki líkur á að ábati hagræðingar skili sér til neytenda.
Í hvítbókinni er vikið að breytingum á eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem munu hafa töluverð áhrif á framtíð fjármálakerfisins. Fram kemur að til staðar sé styrk umgjörð regluverks og eftirlit miði að því að tryggja heilbrigt eignarhald með kröfum til virkra eigenda og takmörkunum á áhrifum eigenda.
Tekið er fram að rök séu fyrir því að dregið verði úr víðtæku eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum til þess að draga úr áhættu, fórnarkostnaði og neikvæðum samkeppnisáhrifum. Í aðdraganda sölu bankanna sé ástæða til að setja í forgang lækkun sértækra skatta og lögfestingu varnarlínu. Þá sé mikilvægt að stjórnvöld hugsi heildstætt um framtíðareignarhald þar sem fjölbreytt eignarhald sé til þess fallið að ná sátt og draga úr áhættu.
Kjarninn mun fjalla nánar um hvítbókina í ítarlegri fréttaskýringu í kvöld.