Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista hefur ákveðið að styrkja Maístjörnuna um 100 þúsund krónur mánaðarlega. Í tilkynningunni frá Sósíalistafélagi Íslands segir að með því lækki Sanna í raun laun sín sem borgarfulltrúi úr 908 þúsund krónur á mánuði í um 750 þúsund krónur fyrir skatt. Það eru 2,5 föld lágmarkslaun.
„Mér finnst að við eigum að setja mörk á hæstu laun í samfélaginu, hversu mikið hærri þau geti verið en lágmarkslaun,“ segir Sanna í tilkynningunni. „Mér finnst þreföld lágmarkslaun algjört hámark, til dæmis fyrir borgarstjóra, og setti launin mín því í þrep þar fyrir neðan.“
Hópar hinna verr settu geta sótt um stuðning
Maístjarnan er sérstakur sjóður til styrkingar hagsmunabaráttu verr settra hópa og mun framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins fara með rekstur sjóðsins og úthlutanir úr honum. Framkvæmdastjórnin hefur ákveðið að setja framlag Reykjavíkurborgar til flokksins, um 900 þúsund krónur í Maístjörnuna. Samkvæmt tilkynningunni má reikna með að á næsta ári verði framlagið tvöfalt hærra og á kjörtímabilinu renni um sjö milljónir króna úr borgarsjóði til Maístjörnunnar, í gegnum Sósíalistaflokkinn. Framlag Sönnu til Maístjörnunnar á kjörtímabilinu er metið á yfir fjórum milljónum króna.
Laufey Ólafsdóttir gjaldkeri framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins segir að hugmyndin sé að fólk sem tilheyrir hópum hinna verr settu í samfélaginu geti sótt stuðning til að greiða kostnað við uppbyggingu baráttuhópa, félaga eða samtaka. „Maístjarnan mun veita skilyrta styrki til að greiða útlagðan kostnað slíkra félaga, en ekki laun eða þóknanir til stjórnar eða félagsmanna. Það er alla vega ramminn til að byrja með. Verklag mun þróast í samstarfi við þá hópa sem við vinnum með.“ segir Laufey.
Maístjarnan borgaði fyrir fundinn 1. desember
Fyrsta verkefni Maístjörnunnar var að gangast í ábyrgð fyrir allan kostnaði vegna útifundarins á Austurvelli 1. desember síðastliðinn. Heildarkostnaður var um 140 þúsund krónur, Skiltakarlarnir söfnuðu í fötur um 106 þúsund krónur upp í kostnaðinn á fundinum og Maístjarnan mun borga mismuninn, en til fundarins var boðað af þremur konum, Arndísi Jónasdóttur, Júlíu Sveinsdóttur og Alexöndru Kristjönu Ægisdóttur, sem ofbauð framkoma þingmanna á Klausturbarnum.
Maístjarnan er fjármögnuð með styrktarframlagi Reykjavíkurborgar til Sósíalistaflokks Íslands og framlögum og gjöfum einstaklinga. Í tilkynningunni segir að reynslan eigi eftir að leiða í ljós hvers kyns hópa, félög og samtök Maístjarnan styrkir.
Sanna Magdalena hvetur að lokum alla sósíalista sem geta að leggja fé til Maístjörnunnar. „Mikilvægustu skrefin í átt að réttlátu samfélagi er að þau sem mest líða undan óréttlæti kapítalismans geti skipulagt sig, myndað samstöðu sín á milli og nái að byggja upp baráttutæki til að berjast fyrir hagsmunum sínum. Það eru mikilvægustu stjórnmálin, lífsbarátta þeirra sem kapítalisminn er að drepa.“ segir í tilkynningunni að lokum.