Í yfirlýsingu frá Arion banki segir að þrátt fyrir að Arion banki hafi átt í viðræðum við flugfélagið Primera Air, áður en félagið var gjaldþrota, þá hafi bankinn hvorki gefið út lánsloforð né nokkur fyrirheit um lánveitinguna. Arion banki sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla þar sem gerðar eru athugasemdir við rangfærslur Andra Más Ingólfssonar, fyrrverandi eiganda Primera Air, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.
Þrýsti ekki á að ferðaskrifstofurnar yrðu færðar í nýtt félag
Arion banki segir að það sem Andri Már segir í viðtalinu sé ekki í samræmi við staðreyndir málsins og gerir því athugasemdir við þær rangfærslur sem þar koma fram. Í viðtalinu segir Andri Már að Primera Air væri enn í rekstri ef Arion banki hefði verið reiðubúinn að veita félaginu brúarfjármögnun líkt og staðið hafði til. „Það er ljóst að ef sú fjármögnun hefði komið, væri Primera Air enn í rekstri,“ segir Andri Már. Arion banki greinir frá því í yfirlýsingunni að bankinn hafi hvorki gefið út lánsloforð né nokkur fyrirheit um lánveitingu vegna Primera air.
Andri Már segir einnig í viðtalinu að í kjölfar gjaldþrots Primera air hafi Arion banki þrýst á að ferðaskrifstofur Primera Air Travel Group yrðu færðar í nýtt félag. Í athugasemdinni frá Arion banka segir að bankinn hafi ekki þrýst á að rekstur ferðaskrifstofu Primera Travel Group yrði færður á að nýtt félag en að bankinn hafi hins vegar samþykkt að sú leið yrði farin. „Arion banki samþykkti hins vegar að sú leið yrði farin og mat það sem svo að með því væri hagsmuna bankans, starfsfólks ferðaskrifstofanna, viðskiptavina þeirra, sem annars hefðu endað sem strandaglópar víða um heim, og annarra kröfuhafa best gætt.“ segir í yfirlýsingunni frá bankanum.
Travelco tapaði fimm milljörðum á falli Primera Air
Mánudaginn 1. október var greint frá því að flugfélagið Primera Air væri á leið í þrot. Í tilkynningunni um gjaldþrot Primera Air kom fram að ferðaskrifstofur Primera Travel Group töpuðu háum fjárhæðum vegna fluga sem greidd höfðu verið til flugfélagsins en voru ekki flogin. Í kjölfarið var stofnað nýtt eignarhaldsfélag, Travelco sem byrjaði með milljarð í nýju hlutafé til að tryggja rekstur ferðaskrifstofunnar. Ferðaskrifstofur Primera samstæðurnar voru færðar yfir í Travelco sem tók þá yfir skuldir félagsins við Arion Banka. Rekstur allra fyrirtækjanna var fluttur undir Travelco og ferðaskrifstofurnar héldu áfram óbreyttum rekstri. Í viðtalinu við Viðskiptablaðið í dag sagði Andri Már að Travelco hafi tapað fimm milljörðum króna á falli Primera Air.