Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, sagðist í viðtali við Kastljós RÚV í kvöld vera að leggja alla áherslu á það að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins, en samningaviðræður við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners standa enn yfir.
Skúli sagðist bera fulla ábyrgð á þeim mistökum sem hefðu verið gerð í starfsemi félagsins, og það væri eðlilegt að því væri velt upp, hvort hann væri rétti maðurinn til að leiða WOW air áfram, ef tækist að klára fjármögnun fyrir félagið. Hann sagðist trúa því að svo væri, og hann tryði því að félagið væri rétt að byrja, eins og Skúli hefur sagt sjálfur.
Eins og greint var frá í dag, þá misstu 111 fastráðnir starfsmenn og fjölmargir starfsmenn í hlutastarfi og verktöku, starfið í dag. Samtals voru það um 350 starfsmenn.
Skúli sagði hug sinn vera hjá starfsfólkinu, en að aðgerðirnar hefðu verið nauðsynlegar til að breyta leiðakerfi félagsins og styrkja grunnrekstur þess, sem lággjaldaflugfélag.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í dag, þá sagði Skúla mistökin sem hann væri ábyrgur fyrir af afdrifarík. „Þetta er ákaflega sársaukafullur lærdómur vegna þess að á sama tíma höfum við byggt upp eitthvað einstakt með Wow air og þó að þetta krefjist þess að við tökum eitt erfitt skref aftur á bak til skamms tíma litið er ég sannfærður um að það geri okkur kleift að taka tvö skref áfram til lengri tíma litið og tryggi að Wow air dafni til framtíðar. Að þeim líkindum að við fáum Indigo Partners sem fjárfesti vil ég hverfa aftur til upphaflegrar hugsjónar okkar og sýna fram á að við getum sannarlega byggt upp frábært lágfargjaldafélag á lengri leiðum,“ sagði Skúli.