Tilnefningarnefnd VÍS hefur lagt til að þau Gestur Breiðfjörð Gestsson, Marta Guðrún Blöndal, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, Valdimar Svavarsson og Vilhjálmur Egilsson verði kjörin í stjórn félagsins á hluthafafundi á eftir.
Gangi það eftir munu hópur sem unnið hafa saman innan VÍS halda meirihluta í stjórn félagsins með þrjá stjórnarmenn. Þau sem tilheyra þeim hópi eru Gestur, Svanhildur Nanna og Valdimar. Helga Hlín Hákonardóttir, fyrrverandi stjórnarformaður VÍS sem sat í tilnefningarnefndinni, sagði sig úr henni að kvöldi þess dags sem tilnefningarnar voru ákveðnar. Það gerði hún vegna þess að sératkvæði sem hún vildi skila var ekki birt í skýrslu tilnefningarnefndar auk þess sem nefndin fundaði um niðurstöðu án hennar viðveru og vitneskju.
Kosin verður ný stjórn á hluthafafundi klukkan 16 í dag. Boðað var til fundarins eftir enn ein átökin innan stjórnar í lok október. Þá sögðu Helga Hlín og Jón Sigurðsson sig úr stjórninni meðal annars vegna þess að Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður félagsins og einn stærsti einkafjárfestirinn í VÍS, vildi taka aftur við stjórnarformennsku.
Stærstu lífeyrissjóðir landsins, sem eru á meðal stærstu hluthafa í VÍS, óskuðu í kjölfarið eftir því að boðað yrði til hluthafafundar þar sem stjórnarkjör yrði sett á dagskrá.
Helga Hlín segir í samtali við Kjarnann að það hafi einfaldlega farið í gang atburðarrás sem hafi ekki verið boðleg. Hún hafi undirbúið sératkvæði sem hún ætlaði til birtingar og fyrir hluthafa að taka afstöðu til. Þegar aðrir í tilnefningarnefndinni hafi fundað án hennar aðkomu og vitneskju og ákveðið að birta ekki sératkvæði hennar hafi verið lítið annað að gera en að segja sig úr tilnefningarnefndinni.
Lífeyrissjóðir stærstu eigendurnir
Stærstu eigendur VÍS eru annars vegar íslenskir lífeyrissjóðir og hins vegar erlendir vogunarsjóðir. Stærsti einstaki eigandinn er Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 8,64 prósent hlut en Frjálsi lífeyrissjóðurinn á auk þess 5,61 prósent og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 5,27 prósent. Þá á lífeyrissjóðurinn Brú 4,01 prósent hlut, Stapi lífeyrissjóður 3,87 prósent og Birta lífeyrissjóður 3,28 prósent.
Þegar þessir eignarhlutir eru lagðir saman við 2,78 prósent hlut Gildis, og 1,55 prósent eignarhlut Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, þá eiga íslenskir lífeyrissjóðir samanlagt að minnsta kosti 35 prósent hlut í VÍS.
Erlendu vogunarsjóðirnir tveir, Landsdowne Partners (7,3 prósent) og breski sjóðurinn CF Miton UK Multi Cap Income (6,19 prósent), eiga síðan samtals 13,49 prósent hlut.
Það hafa hins vegar verið íslenskir einkafjárfestar sem hafa haft tögl og haldir í félaginu undanfarin misseri, bæði í stjórn og tilnefningarnefnd. Þar erum að ræða Svanhildi Nönnu og eiginmann hennar Guðmund Þórðarson, sem eiga samtals 7,25 prósent hlut í gegnumfélagið K2B fjárfestingar ehf., og hins vegar félagið Óskabein ehf., sem er sem er m.a. í eigu Gests Breiðfjörð Gestssonar, stjórnarmanns í VÍS, Sigurðar Gísla Björnssonar, Andra Gunnarssonar og Fannars Ólafssonar. Óskabein á í dag 2,05 prósent hlut í VÍS.
Auk þess eiga sjóðir sjóðstýringafyrirtækisins Stefnis, sem er í eigu Arion banka, samtals 6,35 prósent hlut í VÍS. Þá á Arion banki í eigin nafni 3,46 prósent hlut.