Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur birt pistil á heimasíðu sinni þar sem hann gefur í skyn að fjölmiðlar og stjórnmálamenn hefðu farið öðruvísi með Klausturupptökurnar svokölluðu ef þeir sem teknir væru upp væru úr vinstriflokkum.
Í pistlinum, sem ber nafnið „Er sama hver er?“, leggur Sigmundur Davíð út frá því að þingmennirnir sex sem sátu að sumbli á Klausturbar hefðu verið úr Vinstri grænum og Samfylkingu og að sá sem tekið hafi upp samtal þingmannanna hafi verið „ungir Heimdellingur og harðlínu-frjálshyggjumaður“ sem hefði „gert ráðstafanir til að njósna um einkasamtal þeirra klukkutímunum saman.“
Atburðarás 1
Í pistli Sigmundar Davíðs er stillt upp tveimur mismunandi atburðarrásum: annarri þar sem þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar fá sömu meðferð í umræðunni og þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins sem voru í raun á upptökunum hafa fengið að hans mati. Ljóst er að skrifunum að Sigmundi Davíð finnst sú meðferð ekki sanngjörn. Í þeirri atburðarás setur Sigmundur Davíð formann Miðflokksins í hlutverk Lilju Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins, sem rætt var um með mjög niðrandi hætti á upptökunum frá Klausturbar. Lilja kom í kjölfarið í viðtal í Kastljósi og kallaði Miðflokksmennina sem talað hefðu um hana á kynferðislegan og niðrandi hátt ofbeldismenn.
Getur verið að nú til dags ráðist túlkun á því sem er sagt og gert fyrst og fremst af því hverjir eiga í hlut? Í pistli...
Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Sunday, December 16, 2018
Í pistli Sigmundar Davíðs segir: „Einn þeirra sem talað var um í hinum ólögmætu upptökum, formaður Miðflokksins, er boðaður í viðtal í Kastljósi til að flytja ótruflaður sýningu sem er enn betur æfð en uppsetning Leikfélags Garðabæjar. Sýningin er þó ekki undirbúin af leikstjóra heldur PR-mönnum og snýst um að koma út tilheyrandi frösum og stikkorðum. Miðflokksformaðurinn kallar vinstrimennina sem talað höfðu illa um hann sín á milli (eða hlýtt á) ofbeldisfólk. Framlag þáttarstjórnandans felst í því að kinka kolli og segja já.“
Undir lok fyrri hluta pistilsins segir: „Áfram heldur umfjöllun um málið á þeim forsendum að vinstrimennirnir skuli dirfast að biðja um rannsókn á atburðarásinni.“
Atburðarás 2
Í síðari hluta pistilsins stillir Sigmundur Davíð upp annarri atburðarás sem hann telur að gæti hafa átt sér stað ef persónur og leikendur á upptökunni hefðu verið úr vinstriflokkum en ekki úr Miðflokknum eða Flokki fólksins.
Þar lýsir hann því að allur fókus fjölmiðla og stjórnmála yrði á „að aldrei fyrr í íslenskri stjórnmálasögu hafi öðrum eins aðferðum verið beitt. Tekin eru viðtöl við kunna álitsgjafa sem rifja upp sögur af því sem þeir kalla skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins en láta þó fylgja sögunni að jafnvel í þá tíð hafi menn ekki beitt svo óheiðarlegum brögðum. Þetta sýni að nú svífist Sjálfstæðismenn einskis vegna þess að þeir sjái ofsjónum yfir auknum stuðningi við þá flokka sem njósnað var um.“
Hann segir frá forseta þingsins, sem sé flokksbróðir þeirra þingmanna Vinstri grænna sem teknir hefðu verið upp sem væri harmi sleginn vegna þess að „menn skuli leggjast svo lágt að hljóðrita með ólögmætum hætti samtöl þingmanna“ og að þingið þurfi að bregðast við til að vernda rétt þeirra sem gefa sig að störfum í almannaþágu. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, bað fyrr í þessum mánuði aðra þingmenn en tóku þátt í samræðunum á Klaustri, aðstandendur þeirra, starfsmenn þingsins, konur, fatlaða, hinsegin fólk og þjóðina alla afsökunar fyrir hönd þingsins á því sem fram kom á upptökunum.
Í kjölfarið fjallar pistilinn um það að formaður Miðflokksins yrði gerður ábyrgur fyrir því að hafa verið til umræðu á upptökunum og þegar hann skjóti því inn að hann telji sig hafa verið beittan ofbeldi þá hafi hann verið „spurður hvort hann geti í alvöru haldið því fram að það sé ofbeldi að gagnrýna einhvern í einkasamtali.“
Þá segir að eftir að „löng saga ásakana um kynferðislega áreitni og þöggun í Sjálfstæðisflokknum kemur í ljós eru beinar útsendingar frá Valhöll í hverjum fréttatímanum af öðrum þar sem sagt er frá því að formaður flokksins neiti að svara fyrir málið. Kvörnin er fordæmd fyrir að hylma yfir málin með flokknum jafnvel þótt hluti atburðanna hafi átt sér stað á skrifstofum fjölmiðilsins. Vinstrimenn tala um að miðillinn hafi birt hatursáróður en þaggað önnur mál niður.“
Í ímyndaðri seinni atburðarás Sigmundar Davíð er sá sem tók upp samtölin (Heimdellingurinn) kjöldregin á netinu fyrir athæfið, Hann sagður óheiðarlegur en því miður aðeins birtingarmynd af sjúku ástandi í „flokki sem svífst einskis í því að koma höggi á andstæðinga sína til að geta viðhaldið sérhagsmunagæslu sinni. Ef maðurinn verði ekki sóttur til saka verði enginn öruggur í samfélaginu framar. Stasi-samlíkingar koma fram.
Leiddir eru fram sérfræðingar til að útskýra að atburðurinn kalli á aðgerðir svo það verði ekki reglan að mannréttindi fólks séu brotin með persónunjósnum. Rannsaka þurfi málið enda séu vísbendingar um að fleiri hafi komið við sögu. Það þurfi að verja réttarríkið.“