Íslenska ríkið ætlar að lána Íslandspósti stórfé þrátt fyrir að ekki liggi fyrir greining á því hvað valdi miklum rekstrarvanda. Ríkisendurskoðun telur það óheppilegt að ekki liggi fyrir hvernig eigi að taka á vandanum áður en fjármagn sé sett í það.
Ríkisendurskoðun segir að það sé óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda Íslandspósts þannig að tilskilinn árangur náist „áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins.“ Þetta kemur fram i umsögn Ríkisendurskoðunar um fjáraukalög sem samþykkt voru síðastliðinn föstudag.
Í umsögn stofnunarinnar, sem er endurskoðandi Íslandspósts, segir einnig að fyrir þurfi að liggja greining á því hvað valdi hinum mikla fjárhagsvanda sem Íslandspóstur glímir við, en samkvæmt fjáraukalögum var veitt heimild til að veita fyrirtækinu allt að 500 milljóna króna lán í þessum mánuði til að takast á við hann.
Til viðbótar við það fé sem ríkið ætlar að lána Íslandspósti í á fjáraukalögum er enn frekari lánveiting fyrirhuguð á árinu 2019. Í fjárlögum þess árs er heimild til að endurlána allt að 1,5 milljörðum króna til Íslandspósts til að auka eigið fé fyrirtækisins vegna fyrirliggjandi lausafjárvanda þess. Þar segir að skilyrði lánveitingarinnar sé að lánið verði veitt á markaðsforsendum með fullnægjandi tryggingum. Ekkert liggur þó fyrir um hvernig Íslandspóstur ætlar að greiða umrædd lán til baka.
Milljarðar í fjárfestingar
Íslandspóstur hefur varið tæplega sex milljörðum króna í fjárfestingar á síðustu tólf árum. Þeim fjármunum hefur meðal annars verið varið í að kaupa upp fyrirtæki á nýjum samkeppnismörkuðum eða skapa fyrirtækinu stöðu á slíkum. Sú samkeppni er meðal annars við fyrirtæki í aldreifingu á pósti á borð við auglýsingabréfum, í hugbúnaðargerð, í fraktfluningum, í sendibílaþjónustu, í sendlaþjónustu og prentsmiðjurekstri.
Árið 2018 hefur verið Íslandspósti margt erfitt, fyrirtækið tapaði 161,2 miljónum króna á fyrri helming þess.
Staða Íslandspósts var til umræðu í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í lok nóvember þar sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, var viðmælandi Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans.
Þar sagði Ólafur að samkeppnisrekstur Íslandspósts sé orðinn með hreinum ólíkindum. Það sé eins og stjórn fyrirtækisins hafi misskilið eigendastefnu ríkisins fyrir þau félög þar sem ríkið á hlut, þar sem stendur að þau félög skuli stuðla að samkeppni. „Það er eins og að stjórn Íslandspósts hafi misskilið þetta þannig að hún eigi að keppa við allt sem hreyfist helst[...]„Ef maður fer í pósthús þá er það í samkeppni við sjoppuna í næstu götu, við bóka- og ritfangaverslunina, við leikfangabúðina, við minjagripaverslunina, af því að pósturinn er kominn á fullt í smásölu á öllum þessum vörum.“
Félag atvinnurekenda hefur farið fram á það við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að framkvæmd verði óháð úttekt á starfsemi Íslandspósts. „Eina leiðin sem þingmenn, sem eiga að skuldbinda einn og hálfan milljarð af okkar peningum, inn í þessa hít sem þessi rekstur virðist vera að verða, eina leiðin fyrir þá að fá skýr svör við spurningum um það hvaða ákvarðanir hafa verið teknar á undanförnum árum og hverjir bera á byrgð á þeim er að það verði gerð einhverskonar óháð úttekt,“ sagði Ólafur í þættinum.