Tíunda árið í röð trónar Ísland á toppi lista Alþjóðaefnhagsráðsins yfir ríki þar sem kynjajafnrétti mælist mest. Ísland hefur náð að brúa rúmlega 86 prósent kynjabilsins hér á landi, sem er mest allra ríkja samkvæmt skýrslu Alþjóðaefnhagsráðsins. Á eftir Íslandi eru Noregur, Svíþjóð og Finnland efst á listanum. Skýrslan var birt í morgun og úttektin nær yfir 149 lönd og leggur mat á jafnrétti kynjanna í stjórnmálum, menntun, atvinnu og heilbrigði.
Bakslag í stjórnmálaþátttöku kvenna
Ísland mældist með 87 prósent í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins á síðasta ári og hefur því farið eilítið aftur. Þegar kemur að stjórnmálaþáttöku kvenna stendur Ísland sig best allra ríkja en þó er enn 33 prósent bil á milli kynjanna þegar kemur að þátttöku í stjórnmálum hér á landi. Í skýrslunni segir að bilið hafi stækkað hér á landi á síðasta ári en það er meðal annars vegna þess hve konum fækkaði á Alþingi í síðustu Alþingiskosningum. Ísland mælist einnig með lægsta launamisrétti kynjanna en í skýrslunni segir að Ísland eigi enn langt í land þegar kemur að konum í stjórnunarstöðum fyrirtækja.
Ekki enn tekist að uppræta ofbeldi gegn konum hér á landi
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að sæti Íslands á lista Alþjóðaefnahagsráðsins endurspegli það mikla starf sem unnið hefur verið í þágu jafnréttismála á Íslandi, á vettvangi stjórnvalda, innan fræðanna og í grasrótinni, í tilkynningu frá Stjórnarráðinu „Við eigum kvennahreyfingunni á Íslandi mikið að þakka fyrir að hafa rutt brautina og þrýst á breytingar í samfélaginu. Lykilatriðið er að skilja að jafnrétti kynjanna er ekki náð og að það kemur ekki af sjálfu sér,“ segir Katrín og bendir á að enn að enn sé verka að vinna.
„Þegar ég er spurð um árangur Íslands á alþjóðavettvangi nefni ég oft almenna leikskóla og fæðingarorlof sem lykilstefnumál. En síðan vitum við líka að ofbeldi gegn konum er bæði orsök og afleiðing kynjamisréttis og það hefur okkur því miður ekki tekist að uppræta hér á landi. Við eigum enn verk að vinna og ég hlakka til að leiða þennan málaflokk fyrir hönd ríkisstjórnarinnar næstu árin,” segir Katrín.
Telja að það taki 108 ár til ná fullu jafnrétti kynjanna
Í skýrslu Alþjóðaefnhagsráðsins segir að framfarir í jafnréttismálum gangi hægt á heimsvísu og í niðurstöðu skýrslunnar kemur fram að það muni taka 108 ár að ná fullu jafnrétti karla og kvenna í heiminum.
Í skýrslunni segir að lág stjórnmálaþáttaka kvenna og launamunur kynjanna séu helstu hindranirnar í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Niðurstöður skýrslunnar benda til að enn eru mun færri konur en karlar sem taka þátt í stjórnmálum og launamunur kynjanna mælist 51 prósent í heildina í heiminum.
Þegar að það kemur að stjórnmálaþátttöku þá hefur aðeins 23 prósent kynjabilsins verið brúað í heiminum. Aðeins sjö lönd hafa náð að brúa yfir 50 prósent kynjabilsins þegar að kemur að þátttöku í stjórnmálum, það eru Ísland, Níkaragva, Noregur, Rúanda, Bangladesh, Finnland og Svíþjóð.