Staða skuldabréfaeigenda WOW air sem lögðu fé í flugfélagið í haust virðist nú betri en á horfðist. Það er vegna þess að skilmálabreytingar á skuldabréfaútgáfu flugfélagins þykja mun betri en við var búist í lok síðasta mánaðar. Ekki verður farið fram á neina lækkun höfuðstóll bréfanna og vaxtakjör haldast óbreytt. Á móti kemur að skuldabréfaeigendur þurfi að aflétta þeim veðum sem þeir áttu í WOW air og sú hagnaðarvon sem skuldabréfaeigendur höfðu er tengdist áformum um að skrá WOW air á markað er ekki lengur fyrir hendi. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Fjárfesting Indigo Partners háð skilmálabreytingum bréfanna
Í september 2018 fór fram skuldabréfaútgáfa hjá WOW til að tryggja langtímafjármögnun félagsins. Skuldabréfaeigendur WOW air fjárfestu fyrir samtals 60 milljónir evra í útboðinu en þar á meðal keypti Skúli Mogensen, eigandi WOW air, skuldabréf fyrir 5,5 milljónir evra. Í ljós kom síðar að fjárhagsstaða WOW air var mun þrengri en menn töldu áður skuldabréfaútboðið átti sér stað.
Í lok nóvember bárust svo fréttir af því að ef fyrirhuguð kaup Icelandair Group á WOW air ætti að ná fram að ganga gætu skuldabréfaeigendur þurft að samþykkja tugprósenta afskrifrit af höfuðstól sínum. Nokkrum dögum seinna var síðan tilkynnt að Icelandair hefði hætt við kaupin á WOW air.
Nú vinnur WOW air að því að ná samkomulagi við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners um að fjárfesta í flugfélaginu, og gæti sú fjárfesting verið upp á allt að 75 milljónir dala, eða 9,4 milljarða króna. Sú fjárfesting er þó háð ýmsum skilyrðum m.a. niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Fjárfestingin er þó einnig háð samþykki skuldabréfaeigenda WOW air á ýmsum skilmálabreytingum bréfanna.
Ekki farið fram á lækkun höfuðstóls
Í skilmálabreytingunum er ekki farið fram á neina lækkun á höfuðstól bréfanna samkvæmt heimildarmanni Morgunblaðsins. Fyrst að útlit er fyrir að Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, verði áfram við stjórnartaumana hjá félaginu og í ljósi þess að Indigo Partners er ekki að kaupa félagið að fullu telja skuldabréfaeigendur félagsins að ekki þurfi að koma til afskrifta, segir í umfjöllun Morgunblaðsins.
Auk þess verði vaxtakjör skuldabréfaflokksins óbreytt eða um 9 prósent en það samsvarar um 14 prósent krónuvöxtum vegna vaxtamunar. Þetta þykja ansi góð kjör og endurspegla þá áhættu sem skuldabréfaeigendur tóku segir heimildarmaður Morgunblaðsins.
Vilja falla frá greiðslu álags
Aftur á móti þurfa skuldabréfaeigendur að aflétta þeim veðum sem þeir áttu í WOW air. Samkvæmt Morgunblaðinu er heldur ekki sú hagnaðarvon sem tengdist áformum Skúla um að setja WOW air á markað ekki lengur til staðar því nú er farið fram á að fallið verði frá öllum kauprétti sem samið var um í skuldabréfaútboðinu í september. Mögulegt hefði verið að tryggja skuldabréfaeigendunum ávinning hefði félagið hækkað í virði eftir skráningu á markað.
Einnig er krafist þess að fallið verði frá upphaflegum skilmálum skuldabréfaútgáfunnar sem kváðu á um að útgefandi skuldabréfsins þyrfti að greiða 20 prósent álag ofan á höfuðstól bréfsins yrði það ekki að veruleika að WOW air yrði skráð á markað.