Jólakveðjur ríkisstjórnar til vinnandi fólks eru nöturlegar og ekki til þess gerðar að skapa sátt á vinnumarkaði eða auðvelda gerð nýrra kjarasamninga. Þetta ályktar miðstjórn ASÍ en fréttatilkynning þess efnis var send út í dag.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið, sem birtist í morgun, að áform ríkisstjórnarinnar um lækkun tekjuskatts yrði endurmetin ef samið verði um óábyrgar launahækkanir í komandi kjarasamningum. Hann sagði að til þess að unnt yrði að lækka skatta þyrftu launahækkanir að vera innan þess svigrúms sem fyrir hendi sé. Hann sagði að tekjur ríkissjóðs gætu orðið minni en spáð var vegna óvissu í ferðaþjónustu og mögulegs samdrátt vegna óróa í fluginu.
„Við þurfum að fara að snúa umræðunni á Íslandi upp í það fyrir hvaða launahækkunum er svigrúm í hagkerfinu. Ef launahækkanir eru langt umfram það svigrúm sem er sannarlega til staðar í hagkerfinu fer að vera mikið vafamál hvort stjórnvöld gera rétt í því að fylgja eftir áformum um lækkanir á tekjuskatti einstaklinga,“ sagði Bjarni í viðtalinu.
Í ályktun miðstjórnar ASÍ kemur fram að hún fordæmi að fjármálaráðherra velji að beita hótunum í stað lausna ef umsamdar kjarabætur verkafólks verði honum ekki að skapi.
„Miðstjórn ASÍ bendir á að stjórnvöld séu því miður lítið að gera til að létta róðurinn í kjarasamningaviðræðunum sem nú standa yfir. Tillögur í skatta- og húsnæðismálum hafa enn ekki komið fram, en brýn þörf er á róttækum tillögum sem raunverulega skipta sköpum fyrir almenning. Því miður er það svo að forgangsröðun stjórnvalda felst í lækkun veiðigjalda á útgerðina, lögfestingu síðasta dóm kjararáðs sem veitti kjörnum fulltrúum ríflegar launahækkanir ásamt því að veita fjármálafyrirtækjum ríflegar skattalækkanir,“ segir í ályktuninni.
Miðstjórn ASÍ skorar jafnframt á fjármálráðherra og ríkisstjórn að hraða allri vinnu sem lýtur að kröfum verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum og hvetur Bjarna til að vinna að lausnum og sátt í skattamálum frekar en beita vinnandi fólk hótunum.