Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segist ekki viss um að innistæða hafi verið fyrir „öllum þessum málarekstri“ sem tengdist bankahruninu. Þetta kemur fram í viðtali við hana í nýjustu útgáfu Þjóðmála.
Þar segir Sigríður að mönnum hafi verið vandi á höndum þegar verða áföll eins og bankahrunið sem eru úr takti við öll hlutföll í þjóðfélaginu. Gagnrýni á það sem gert verður við slíkar aðstæður sé alltaf því marki brennd að menn hafi ekki samanburð við þær leiðir sem ekki voru farnar. “Það var ekki óvænt að menn myndu láta reyna á alls konar gjörninga fyrir dómi en með tímanum þegar litið er til baka er ég ekki viss um að hægt sé að fullyrða að innstæða hafi verið fyrir öllum þessum málarekstri. Margir hafa átt um sárt að binda vegna þessara mála og ég vona innilega að þeir láti þau ekki byrgja sér sýn þegar horft er fram á veginn.“
flóknar fyrir árið 2008. Það var mikið eftirlit með fjármálastarfsemi, hér sem annars staðar á Vesturlöndum og löggjafinn hafði sett alveg gríðarlega margar reglur um fjármálafyrirtæki. Það eru fá ef nokkur dæmi í sögunni um starfsemi sem laut fleiri reglum[...]En allt kom fyrir ekki þannig að menn þurfa stundum líka að horfast í augu við það að stundum eru áföll óhjákvæmileg og það er ekki hægt að koma í veg fyrir þau öll með reglum og eftirliti. Það má heldur ekki skapa falskar væntingar manna til þess að með eftirlitinu þurfi menn ekki að hafa vit fyrir sjálfum sér. Þetta er alltaf mikið álitaefni og við lagasetningu þarf löggjafinn að huga vel að þessu, þ.e. þegar það er verið að afhenda eftirlitsstofnunum sektarheimildir og önnur verkfæri til að beita viðurlögum. Þetta er þunn lína, hvenær farið er yfir það sem eðlilegt má teljast í ljósi þeirra réttarfarsreglna sem hér ríkja.“
35 mál í ákæruferli
Haustið 2018 voru tíu ár liðin frá bankahruninu. Samkvæmt nýlegri úttekt Financial Times hafa 47 bankamenn verið fangelsaðir í heiminum vegna fjármálakreppunnar sem skall á heiminum haustið 2008. Sú tala er reyndar töluvert vanáætluð vegna þess að á Íslandi einu saman hafa 40 einstaklingar hlotið samtals nálægt hundrað ára fangelsisdóma vegna hrunmála, sem flest hafa enda með sakfellingu.
Ólafur Þór Hauksson, nú héraðssaksóknari en áður sérstakur saksóknari, var í viðtali við sjónvarpsþáttinn 21 á Hringbraut í október. Þar sagði hann að um 200 mál hafi komið inn á borð embættisins tengd hruninu. Af þeim hafi mörg verið sameinuð og á endanum fóru 35 í ákæruferli. Af þeim stóðu þá sex eftir, tvö fyrir héraðsdómi og fjögur fyrir Landsrétti. Þar af voru fjögur mál sem Hæstiréttur Íslands hefur heimvísað til lægra dómstigs. Hægt er að sjá viðtalið við Ólaf í heild sinni hér að neðan.
Tveimur þeirra mála er nú lokið fyrir því dómstígi sem þau voru á. Aurum-málinu lauk með sýkna allra sakborninga fyrir Landsrétti í október og í nóvember var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sakfelldur fyrir innherjasvik í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hreiðari Má var hins vegar ekki gerð refsing en hann hefur hlotið samtals sjö ára fangelsisdóma í þremur öðrum málum, þar af tveimur sem lokið hefur með sakfellingu í Hæstarétti Íslands.
Sumum málum hætt vegna þess að það skorti fjármagn
Í þættinum var Ólafur einnig spurður um þau mál sem rötuðu ekki í ákæruferli og sagði að þar væru fyrst og fremst um mál að ræða sem embættið taldi að myndu ekki ná inn í dóm. „Annars vegar var þá hætt rannsókn eða þá mál voru fullkláruð og svo tekið mat á því hvort þau stæðust sönnunarlega séð. Hvort það væru meiri líkindi en minni að það yrði sakfellt í þeim. Í nokkrum tilvikum var það þannig að það þótti ekki vera. Síðan í restina voru farin að koma inn frekari sjónarmið eins og til dæmis tímalengdin, hvað þetta var búið að taka langan tíma. Þar kom inn í að við erum skorin svolítið hressilega niður strax á árinu 2013, sem gerir það að verkum að sumt að því sem við vorum með það náði ekki fram.“
Þegar Ólafur var spurður að því í sjónvarpsþættinum í október, sem sýndur var í kringum tíu ára afmæli bankahrunsins, um það hvernig það stæðist jafnræðissjónarmið að sumir einstaklingar slyppu við ákæru, og mögulega dóm, vegna þess að rannsókn á málum þeirra hefði tekið lengri tíma en hjá öðrum eða vegna þess að embættinu skorti fjármagn, svaraði hann því til að það væri eðlilegt að velta þeirri spurningu upp. „En í mjög mörgum tilvikum var um að ræða mál sem beindust að sömu aðilum og áður höfðu fengið dóma og jafnvel voru komnir með fullnýtta refsiramma, upp í sex ár. Þannig að það var í langflestum tilvikum um slíkt að ræða.“