Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna, Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins og Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, hafa öll farið fram á afsögn Dags B. Eggertssonar, borgarstjórans í Reykjavík, vegna braggamálsins svokallaða. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þar kemur einnig fram að oddviti þriðja flokksins sem myndar minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, Sanna Magdalena Mörtudóttir frá Sósíalistaflokki Íslands, segist hafa orðið orðlaus við lesningu skýrslunnar en fer ekki fram á afsögn borgarstjóra. Hildur Björnsdóttir, sem er annar maður á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, hefur ekki farið fram á afsögn líkt og oddviti flokks hennar. Hún hefur hins vegar sagt að ef Dagur segi sig ekki úr rýnihóp sem hann, hún og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, skipa, og á að skoða skýrslu innri endurskoðunar nánar muni Hildur sjálf víkja úr þeim hópi.
Enginn oddviti þeirra flokka sem mynda meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata í borgarstjórn hefur farið fram á að borgarstjóri víki vegna málsins. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, segir við Morgunblaðið að Dagur njóti stuðnings þangað til að annað kemur í ljós. Endanlega ákvörðun um stuðning verði tekin eftir að fundað verði með grasrót flokksins í janúar.
Kostnaður við framkvæmdir við endurgerð braggans við Nauthólsveg fór yfir 400 milljónum króna en upphaflega var gert ráð fyrir að hann yrði 158 milljónir.
Hæsti reikningurinn við framkvæmdirnar hljóðaði upp á 105 milljónir króna og grasstrá sem gróðursett voru í kringum bygginguna kostuðu 757 þúsund krónur. Framkvæmdum er enn ólokið en töluverð vinna er eftir í viðbyggingunni, þar sem til stendur að opna frumkvöðlasetur.
Skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um kostnað vegna verkefnisins var birt í lok síðustu viku. Niðurstöður hennar benda eindregið til þess að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg. Þar kemur skýrt fram að meginsök á framúrkeyrslunni hafi legið hjá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og fyrrverandi yfirmanni hennar, Hrólfi Jónssyni. Í skýrslunni segir hins vegar einnig: „Samkvæmt skipuriti er borgarritari næsti yfirmaður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar en þó hafa mál skrifstofunnar ekki verið á hans borði heldur farið beint til borgarstjóra og því hefur ekki verið unnið samkvæmt réttri umboðskeðju. Mikil samskipti hafa verið milli fyrrum skrifstofustjóra og borgarstjóra allt frá stofnun skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, en þeim ber saman um að borgarstjóra hafi ekki verið kunnugt um framvindu framkvæmda að Nauthólsvegi 100. Engar skriflegar heimildir liggja fyrir um upplýsingagjöf frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til borgarstjóra varðandi framkvæmdirnar.“