Japan mun segja sig úr Alþjóða hvalveiðiráðinu (IWC) og hefja hvalveiðar í atvinnuskyni í japanskri lögsögu næstkomandi sumar. Þetta kemur fram í frétt RÚV en talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar staðfestir þetta í fjölmiðlum eystra.
Formleg ákvörðun um þetta var tekin á ríkisstjórnarfundi í morgun. Úrsögnin tekur gildi 30. júní á næsta ári og daginn eftir er áætlað að hefja atvinnuveiðar í japanskri lögsögu. Um leið munu Japanir hætta öllum hvalveiðum í Suður-Íshafi og annars staðar á suðurhveli Jarðar, segir í fréttinni.
Þá kemur fram að ákvörðun Japana um að segja sig úr Alþjóða hvalveiðiráðinu komi ekki á óvart og hafi raunar legið í loftinu síðan í september, þegar ráðið synjaði umsókn þeirra um að fá að taka upp atvinnuveiðar í eigin lögsögu á ný.
„Hvalveiðar eiga sér aldalanga sögu í Japan. Samkvæmt þarlendum hvalveiðisamtökum nær sú saga allt aftur til tólftu aldar, en skipulagðar hvalveiðar munu hafa byrjað þar snemma á sautjándu öld. Japanir gerðust aðilar að Alþjóða hvalveiðiráðinu 1951, í þann mund sem hvalveiðar þeirra voru að ná hámarki. Talið er að um eða yfir 2.000 hvalir hafi verið verkaðir í stærstu hvalstöð landsins þegar mest var á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.
Mjög hefur dregið úr hvoru tveggja veiðum og neyslu Japana á hval á síðustu árum og áratugum og nú er svo komið að meirihluti landsmanna borðar sjaldan eða aldrei hvalkjöt og neyslan komin niður í 5.000 tonn á ári í stað 200.000 tonna á sjöunda áratugnum,“ segir í fréttinni.