Rúmlega 45 prósent landsmanna vill óbreytt fyrirkomulag á sölu flugelda. Alls vilja því tæplega 55 prósent þjóðarinnar einhverskonar takmarkanir á sölu flugelda.
Þetta kemur fram í könnun sem Maskína gerði daganna 14-28. desember. Alls voru svarendur 817 talsins sem dregin var með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Gögnin voru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu.
Af þeim sem vilja takmarkanir á sölu flugelda vildu um 28 prósent einungis heimila sölu flugelda til þeirra sem stæðu fyrir flugeldasýningum. Tæplega fimmtungur þjóðarinnar vildi heimila sölu til einstaklinga en takmarka það magn sem þeir mættu kaupa og 6,6 prósent vildi banna flugelda alfarið.
Sífellt færist í aukana að farið sér fram á að óheft flugeldasala sé bönnuð. Flugeldavertíðinni um áramót fylgir enda mikil mengun. Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands er svifryksmengun í Reykjavík um áramótin um 500 mikrógrömm á rúmmetra þegar verið er að skjóta upp flugeldum. Við brennur sem haldnar eru víða um land er mengunin enn hærri, eða alla jafna yfir 600 míkrógrömm. Allt yfir 50 míkrógrömm á rúmmetra er yfir heilsuverndarmörkum.
Margir sem glíma við lungnasjúkdóma þurfa þar af leiðandi að leita á bráðamóttöku vegna einkenna svifryksmengunar um áramót. Á vef heilsgæslunnar segir að mengunin um áramót sé það mikil að frískt fólk getur fundið fyrir áhrifum á öndunarfærin. „Hér er því um að ræða mikla umhverfisvá sem taka ber á. Þetta má líta á sem heilsuvernd og því þurfum við að taka á þessu máli án tafar.“
Björgunarsveitir landsins, sem hafa notað flugeldasölu til að fjármagna starfsemi sína um áratugaskeið, hafa brugðist við aukinni gagnrýni með því að bjóða upp þeim sem vilja styrkja starfsemi þeirra án þess að kaupa flugelda upp á að kaupa tré sem verða gróðursett í Áramótaskógi í staðinn.
Mikill munur eftir stjórnmálaskoðunum
Mikill munur var á afstöðu svarenda eftir kyni, búsetu og menntun. Konur voru mun líklegri til að vilja takmörkun á sölu flugelda en karlar, svarendur á landsbyggðinni voru mun líklegri til að vilja óbreytt fyrirkomulag á sölunni en íbúar á höfuðborgarsvæðinu og þeir sem eru með háskólamenntun eru mun líklegri til að vilja takmarkanir á sölu flugelda en þeir sem hafa mest lokið grunnskólaprófi.
Þá er einnig mikill munur á afstöðu til flugelda eftir stjórnmálaskoðunum. Kjósendur Viðreisnar (31,6 prósent) Vinstri grænna (32,5 prósent) og Samfylkingar (34,1 prósent) eru minnst hrifnir af óbreyttu fyrirkomulagi á sölu flugelda á meðan að kjósendur Miðflokksins (64,4 prósent), Flokks fólksins (64 prósent) og Sjálfstæðisflokksins (57,7 prósent) eru mest fylgjandi því að allir geti áfram keypt eins mikið af flugeldum og þeir vilja. Alls eru 56,2 prósent kjósenda Framsóknarflokksins á þeirri skoðun og 42,2 prósent kjósenda Pírata. Píratar eru þó líklegastir allra til að vilja alfarið banna sölu flugelda, en 18,5 prósent kjósenda þeirra eru á þeirri skoðun.