Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, var valinn viðskiptamaður ársins 2018 af Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti. Í viðtali við blaðið vegna þessa segist hann muna leggja fram tillögu við stjórn félagsins, sem er skráð í Kauphöll Íslands, að nafni þess verði breytt í Brim.
Útgerðarfélag Guðmundar hét Brim árum saman. Eftir að hann keypti um þriðjungshlut í HB Granda í fyrra fyrir 22 milljarða króna í ár þá breytti hann nafni þess í Útgerðarfélag Reykjavíkur. Nú vill hann nota gamla nafnið á nýja félagið sem hann stýrir. Í viðtali við Markaðinn segir Guðmundur að honum hafi alltaf þótt Brim vera fallegt nafn á sjávarútvegsfyrirtæki og að hann hafi „oft hugsað um að Brim yrði sterkt almenningshlutafélag á hlutabréfamarkaði.“
Kjarninn fjallaði ítarlega um rússíbanareið Guðmundar á undanförnum árum í ítarlegri fréttaskýringu fyrir skemmstu.
Markaðurinn valdi söluna á tölvuleikjafyrirtækinu CCP til kóreska leikjaframleiðandans Pearl Abyss á 425 milljónir dali, eða tæplega 50 milljarða króna, í byrjun september sem viðskipti ársins.
Fjárfesting í skuldabréfaútboði WOW air í september voru hins vegar valin verstu viðskipti ársins enda þegar ljóst, nokkrum vikum síðar, að þátttakendur þurfa að endursemja um þá fjárfestingu eigi WOW air að lifa. Næst verstu viðskiptin var sú ákvörðun Icelandair Group að falla frá kaupunum á WOW air og kaup Sýnar á stórum hluta fjölmiðla 365 miðla lenti í þriðja sæti.