Miðflokkurinn myndi fá 5,7 prósent fylgi ef kosið yrði í dag samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi flokksins mældist 12,0 prósent í síðustu könnun fyrirtækisins sem birt var 30. nóvember. Það hefur því rúmlega helmingast.
Könnunin var gerð dagana 3. desember 2018 til 1. janúar 2019, eða eftir að hið svokallaða Klausturmál kom upp. Heildarúrtaksstærð var 4.899 og þátttökuhlutfall var 58,0 prósent. RÚV greindi frá.
Flokkur fólksins, sem átti líka tvo þingmenn á Klausturbar, sem nú hefur verið vikið úr flokknum, myndi fá 5,3 prósent fylgi ef kosið yrði í dag. Flokkurinn mældist með 6,2 prósent fylgi fyrir rúmum mánuði síðan.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr stærsti flokkur landsins með 22,7 prósent fylgi. Stuðningur við hann dróst saman í desember en fyrir rúmum mánuði sögðust 23,5 prósent landsmanna ætla að kjósa flokkinn.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír eru því samanlagt með 45,7 prósent fylgi sem myndi ekki duga til að mynda meirihlutastjórn ef kosið yrði í dag. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 44,8 prósent. Það er minnsti stuðningur sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur mælst með frá því að hún tók við völdum. Í desember 2017 mældist stuðningur við hana til að mynda 74,1 prósent.
Þeir þrír stjórnarandstöðuflokkar sem áttu ekki fulltrúa á Klausturbar standa allir nánast í stað á milli mánaða. Samfylkingin mælist með 18,4 prósent fylgi, Píratar með 10,5 prósent og Viðreisn með 10,5 prósent. Samanlagt fylgi þeirra þriggja er því 39,4 prósent og eykst um 0,7 prósentustig milli mánaða.