Fjármálaeftirlitið (FME) auglýsti í gær eftir áhugasömum sérfræðingum utan stofnunarinnar til að taka að sér afmörkuð verkefni, skyldu slík koma upp.
Í frétt á vef FME segir að stofnunin hafi til að mynda heimild til að skipa sérfræðing til að athuga tiltekna þætti í starfsemi eða rekstri eftirlitsskyldra aðila, sem eru bankar og önnur fjármálafyrirtæki, eða til að hafa að öðru leyti sértækt eftirlit með eftirlitsskyldum aðilum.
Í fréttinni stendur enn fremur að FME hafi heimild til að skipa bráðabirgðastjórn yfir eftirlitsaðila „við sérstakar aðstæður“.
Þeir sem hafa áhuga á að sinna ofangreindum verkefnum fyrir FME, skyldu þau koma upp, geta skilað ferilskrám sínum til þess, en auk þess geta fyrirtæki gefið kost á tilteknum starfsmönnum sínum til slíkra starfa. Í fréttinni segir að leitað sé „að einstaklingum með fjölbreytta reynslu og þekkingu á sviði lögfræði, fjármálamarkaða, reksturs og stjórnunar. Ekki er tekið við ferilskrám þeirra sem starfa hjá eftirlitsskyldum aðilum.“
FME getur vikið stjórn fjármálafyrirtækis frá
Heimild FME til að skipa bráðabirgðastjórn yfir eftirlitsskyldum aðila byggir á innleiðingu tilskipana Evrópusambandsins í íslenskan rétt á síðasta ári. Samkvæmt þeim getur FME vikið stjórn lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis frá í heild eða hluta, sem og framkvæmdastjóra þess, hafi fyrirtækið brotið alvarlega gegn lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum eða ef alvarlega athugasemdir hafi verið gerðar við stjórnun þess.
Telji FME að brottvikning stjórnar og framkvæmdastjóra sé ekki fullnægjandi til að rétta af fjárhagslega stöðu viðkomandi fyrirtækis þá getur stofnunin skipað bráðabirgðastjórnanda eða eftir atvikum -stjórn. Skipunartími slíkra skal að hámarki vera eitt ár en við sérstakar aðstæður er hægt að framlengja skipunartímann. Það er FME sem leggur mat á hæfi þess sem skipaður er í stjórnina.
Bráðabirgðastjórnandi sem FME skipar er einungis ábyrgur fyrir tjóni sem hann veldur í störfum sínum af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.