Aukin umfjöllun um peningaþvætti leiddi til þess að tilkynningum til peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara hefur fjölgað umtalsvert. Á árinu 2016 voru mótteknar 655 slíkar tilkynningar, árið 2017 voru þær 718 en á fyrstu átta mánuðum ársins 2018 voru þær rúmlega 800 talsins.
Þetta kemur fram í greinargerð sem fylgdi með frumvarpi að nýjum heildarlögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem varð að lögum í byrjun árs 2019.
Ef tilkynningar til peningaþvættisskrifstofunnar urðu jafn margar á síðasta þriðjungi ársins og þær urðu á fyrstu átta mánuðum þess þá má ætla að fjöldi tilkynninga hafi nálægt tvöfaldast frá árinu 2016.
Í greinargerðinni kom fram að fjölgun tilkynninga hafa leitt til fleiri rannsókna að hálfu lögreglu og að fyrirséð sé að málafjöldi muni halda áfram að aukast með aukinni fræðslu og eftirliti sem stefnt sé að.
Kjarninn greindi frá helstu breytingunum sem fylgja nýrri heildarlöggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í fréttaskýringu í gær. Þar kom meðal annars fram að í apríl 2018 hafi íslenskum stjórnvöldum verið gert það ljóst af samtökunum Financial Action Task Force (FATF) að annað hvort myndu þau taka sig til og innleiða almennilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eða landið myndi verða sett á lista alþjóðlegu samtakana Financial Action Task Force (FATF) um ósamvinnuþýð ríki.
Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.
Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra var settur í að semja frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um peningaþvætti og hryðjuverka.
Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um ný heildarlög 5. nóvember síðastliðinn.
Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gildi á þriðjudag, þann 1. janúar 2019.