Tillaga verður lögð fram á félagsfundi Sósíalistaflokks Íslands um að kröfugerð Starfsgreinasambandsins, gagnvart sjórnvöldum í tengslum við kjarasamninga, verði hluti af stefnu Sósísalistaflokksins. Flokkurinn myndi þá taka upp stefnu og kröfur verkalýðshreyfingarinnar gagnvart stjórnvöldum. Fundurinn verður haldinn 19. janúar næstkomandi í Dósaverksmiðjunni. Á dagskrá fundarins eru umræður um uppbyggingu flokksins, stefnu hans, stöðu, hlutverk og framtíðaráform.
Allir félagar í Sósíalistaflokknum eru hvattir til að mæta og taka þátt í mótun flokksins á félagsfundinum. Sósíalistaflokkurinn fékk 6,4 prósent atkvæða í Reykjavík og einn borgarfulltrúa í síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Kröfugerð Starfsgreinasambandsins
Kröfugerð SGS var samþykkt á fundi sambandsins þann 10. október 2018. Í kröfugerðinni má finna kröfur sambandsins varðandi skattkerfið, húsnæðismál, brottastarfsemi á vinnumarkaði ásamt fleiru. Í kröfugerðinni segir að þær launahækkanir sem samið hefur verið um síðustu ár hafi skilað sér mjög misjafnlega til launafólks á Íslandi.
„Dregið hefur mjög úr jöfnunaráhrifum skatta- og bótakerfisins og húsnæðiskostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi. Umræddar breytingar hafa að öllu leyti bitnað með meiri þunga á láglaunafólki en öðrum. Það er því skýlaus krafa félagsmanna innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands að stjórnvöld axli ábyrgð á bættum kjörum með endurskoðun skatta- og bótakerfisins og stórátaki í húsnæðismálum.“ segir í kröfugerðinni. Jafnframt kemur fram að tugir þúsunda félagsmanna hafi tekið þátt í mótun kröfugerðarinnar og að það sé samdóma álit þeirr að „spjótin beinist að stjórnvöldum í komandi kjaraviðræðum.
Starfsgreinasambandið er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi og stærsta sambandið innan ASÍ, með samtals um 57.000 félagsmenn. Starfsgreinasamband Íslands (SGS) var stofnað 13. október árið 2000 við samruna Verkamannasambands Íslands, , Þjónustusambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks frá 1973. Stofnfélög Starfsgreinasambandsins voru 50 að tölu en í dag eru aðildarfélögin 19 talsins.