Sjóðsfélagar lífeyrissjóða landsins tóku 42 prósent lægri upphæð verðtryggt að láni hjá sjóðunum í nóvember 2018 en í sama mánuði árið áður. Alls lækkaði heildarupphæðin sem sjóðsfélagarnir tóku að láni hjá sjóðunum til íbúðarkaupa um 32 prósent milli ára. Í nóvember 2017 lánuðu lífeyrissjóðirnir 9,7 milljarða króna til íbúðarkaupa en í nóvember í fyrra nam sú upphæð 6,6 milljörðum króna.
Sú upphæð skiptist nánast jafnt milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána. Raunar munar einungis einni milljón króna á lánategundunum. Svo lítill munur hefur aldrei verið á verðtryggðum og óverðtryggðum útlánum lífeyrissjóða frá því að þeir fóru að bjóða upp á óverðtryggð lán síðla árs 2015. Til samanburðar má nefna að í ágúst 2018, þegar lífeyrissjóðirnir lánuðu alls 10,2 milljarða króna til sjóðsfélaga sinna, voru 81 prósent allra útlána verðtryggð. Þremur mánuðum síðar voru, líkt og áður sagði, um 50 prósent þeirra óverðtryggð.
Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands sem birtar voru í dag.
Stóru sjóðirnir farnir að draga í land
Mjög hefur hægst á lántökum til íbúðarkaupa hjá lífeyrissjóðum landsins á undanförnum mánuðum. Sá samdráttur á sér fyrst og síðast stað í verðtryggðum lánum.
Hins vegar hafa stærstu sjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna og nú síðast Gildi Lífeyrissjóður allir lækkað veðhlutfall sjóðsfélagslána sinna úr 75 í 70 prósent. Það gerir það að verkum að færri sjóðsfélagar en áður geta tekið slík lán.
Farið var yfir þessa stöðu í fréttaskýringu sem birtist á Kjarnanum í síðustu viku. Þar var greint frá því að ákvörðun Gildis um að lækka veðhlutfall sitt byggði meðal annars á varúðarsjónarmiði vegna mikilla verðhækkana á fasteignamarkaði á undanförnum árum, og hins vegar vegna aukinnar ásóknar í lán hjá Gildi. Heimildir Kjarnans herma að sú ásókn hafi aukist umtalsvert eftir að hinir tveir stóru lífeyrissjóðirnir sem lána sjóðsfélögum til íbúðarkaupa lækkuðu veðhlutfall sitt niður í 70 prósent.
Bitnar verst á þeim sem eiga minna eigið fé
Íslendingar taka sögulega mun frekar verðtryggð lán en óverðtryggð. Ástæðan er sú að þeim fylgir lægri greiðslubyrði, en síðustu ár hafa slík lán einnig verið hagkvæm þar sem verðbólga var árum saman undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands og endurkoma lífeyrissjóðanna á íbúðarlánamarkað haustið 2015 hefur leitt til þess að vaxtakjör hafa lækkað hratt. Þannig er nú hægt að fá verðtryggð lán með breytilegum vöxtum á 2,46 prósent hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum, sem býður 70 prósent veðhlutfall. Alls bjóða níu lífeyrissjóðir verðtryggð íbúðarlán með undir þriggja prósenta vöxtum. Til samanburðar eru ódýrustu breytilegu verðtryggðu vextir sem bjóðast í banka á Íslandi hjá Landsbankanum. Þar eru vextirnir 3,55 prósent, eða 44 prósent hærri en hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum. Landsbankinn býður hins vegar viðskiptavinum sínum hærra veðhlutfall, eða 85 prósent.
Mikið breyting á allra síðustu mánuðum
Í íbúðamarkaðsskýrslu Greiningar Íslandsbanka sem birt var í október 2018 kom fram að 77 prósent heildarskulda heimila landsins væru verðtryggðar. Í þeim saman mánuði, samhliða því að verðbólga tók að hækka skarpt, drógust verðtryggð útlán fjármálafyrirtækja, samkvæmt mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs, verulega saman. Raunar voru nýu íbúðarlán, að frádregnum umfram- og uppgreiðslum eldri lána, nánast einvörðungu óverðtryggð lán, eða 94 prósent.
Þessi tilhneiging sést einnig vel í útlánum lífeyrissjóða. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 voru 75 prósent allra útlána þeirra til sjóðsfélaga verðtryggð lán. Í október og nóvember voru þau tæplega 53 prósent allra lána, og óverðtryggð lán því tæplega 47 prósent útlána lífeyrissjóða.
Alls hafa lífeyrissjóðir landsins lána tæplega 330 milljarða króna til sjóðsfélaga sinna frá því að þeir hófu endurkomu sína á íbúðarlánamarkað af alvöru haustið 2015 með því að hækka veðhlutföll og bjóða upp á mun hagstæðari kjör en þeir höfðu gert áður.