Fjöldi þeirra íbúa á Íslandi sem skráðir eru utan trú- og lífsskoðunarfélaga hefur vel rúmlega tvöfaldast frá því í byrjun árs 2009, eða á áratug. Þá voru þeir sem voru skráðir utan slíkra félaga 9.306 talsins. Um síðustu áramót var sú tala komin upp í 24.871. Á síðasta ári einu saman fjölgaði þeim sem skráðir eru utan trú- og lífsskoðunarfélaga um rúmlega 2.300. Því er langmest aukning á skráningum hérlendis á meðal þeirra sem skrá sig utan trúfélaga.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands um skráningar í trú- og lífsskoðunarfélög.
Þann 1. janúar síðastliðinn voru alls 232.646 einstaklingar skráðir í íslensku þjóðkirkjuna. Þeim fækkaði um 26 í jólamánuðinum. Þjóðkirkjan er áfram sem áður langfjölmennasta trúfélag landsins með 65,2 prósent landsmanna innanborðs. Það þýðir því að 34,8 prósent þjóðarinnar er utan þjóðkirkju, eða um 124.173 manns.
Kaþólikkum fjölgar hratt
Miklar breytingar hafa einnig átt sér stað í öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum á undanförnum árum. Næst fjölmennasta trúfélag landsins er Kaþólska kirkjan en í henni voru 13.991 manns um nýliðin áramót. Í byrjun árs 2009 voru 9.281 manns skráðir í hana. Þeim hefur því fjölgað um 73 prósent á tíu árum. Þessi aukning hefur átt sér stað samhliða mikilli fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi, en stærstu hóparnir sem hingað flytja koma frá löndum þar sem staða Kaþólsku kirkjunnar er sterk. Þar munar mest um Pólverja, sem eru fjölmennasta hóp erlendra ríkisborgara sem búsettur er á Íslandi. Í byrjun árs 2009 bjuggu 11.611 slíkir á Íslandi en í byrjun desember 2018 var sá fjöldi kominn upp í 19.190.
Fríkirkjur landsins hafa einnig bætt við söfnuði sína á undanförnum árum. Fríkirkjan í Reykjavík telur nú 9.874 (aukning um 25 prósent frá 2009) meðlimi og Fríkirkjan í Hafnarfirði 6.983 (aukning um 33 prósent frá 2009).
Alls eru 4.472 íbúar landsins skráðir í Ásatrúarfélaginu. Fjöldi þeirra sem aðhyllast þá trú hefur margfaldast á síðastliðnum áratug, en meðlimir voru alls 1.275 í byrjun árs 2009. Þeir hafa því 3,5faldast á tímabilinu.
Mikil fjölgun hjá Siðmennt en fækkar hratt hjá Zúistum
Siðmennt, sem hefur verið skráð trúfélag frá árinu 2013, hefur einnig vaxið ásmegin ár frá ári. Í byrjun árs 2014 voru 612 einstaklingar skráðir í lífskoðunarfélagið en nú eru meðlimir þess 2.840 talsins. Meðlimafjöldinn hefur því nálægt fimmfaldast á örfáum árum.
Það trúfélag sem hefur vakið eina mesta athygli á undanförnum árum eru Zúistar. Þeir voru tveir árið 2014 en fjöldi þeirra rauk upp í rúmlega þrjú þúsund í byrjun árs 2016, eftir að hópur manna taldi sig hafa tekið yfir félagið og ætlaði að endurgreiða fólki þau sóknargjöld sem innheimt yrði vegna þeirra. Síðan stóð yfir áralöng barátta milli þess hóps og þeirra aðila sem áður höfðu farið með yfirráð í félagsskapnum. Sú barátta endaði með sigri hinna síðarnefndu. Hratt hefur fjarað undan félaginu síðan en skráðir meðlimir nú eru 1.604 talsins.