Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ljóst að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustugreinum gætu átt í erfiðleikum með að standa af sér langvarandi verkföll með vorinu. Hann varar við árásum á greinina og segir að verkföll gætu sett fyrirtæki í ferðaþjónustu í þrot.
„Svigrúmið til launahækkana í ferðaþjónustu er líklega minna en í mörgum öðrum atvinnugreinum. Verði hér langvarandi árásir á ferðaþjónustu í heild sinni, eða á hluta hennar, gætum við horft upp á að einhver fyrirtæki leggi hreinlega upp laupana. Staðan er bara þannig“ segir Jóhannes í samtali við Morgunblaðið í dag.
Ferðaþjónustan skotspónn slíkra aðgerða
Jóhannes Þór segir að fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi töluverðar áhyggjur af því að hluti verkalýðshreyfingarinnar hafi talað á þann veg að búast megi við átökum. „Víðtæk átök geta enda haft mikil áhrif. Á síðustu árum hefur ferðaþjónustan verið skotspónn slíkra aðgerða og það hefur komið fram hjá sumum í verkalýðshreyfingunni að nú sé horft til greinarinnar,“ segir Jóhannes Þór
Jóhannes Þór segir að atvinnugreinin vonist til að ekki komi til verkafalla en segir að fyrirtækin séu byrjuð að meta hvernig þau muni bregðast við verkföllum. „Við vonumst sem atvinnugrein til að það komi ekki til verkfalla. Við teljum að það yrði skaði fyrir samfélagið allt ef það kæmi til þess. Vonandi átta báðir aðilar við samningaborðið sig á því að svigrúm til launahækkana verður ekki aukið með slíkum aðgerðum.,“ segir Jóhannes Þór.
Í umfjöllun Morgunblaðsins var einnig rætt við Eggert Þór Kristófersson, forstjóri hjá Festi, sem rekur N1 og Krónuna. Eggert segir fyrirtækið hafi almenna viðbragðsáætlun ef það komi til verkfalla. Hún tryggi að til sé meira eldsneyti á dælustöðvum en almennt. Hann segir aftur á móti að matvörubúðir lokist þegar verkföll skella á, þær verði enda ekki mannaðar með öðru starfsfólki.
Verkafólk mun ekki afsala sér verkfallsrétti
Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að verkafólk muni ekki afsala sér verkfallsrétti fyrir afturvirkni líkt og fólgið er í tilboði Samtaka atvinnulífsins. Greint var frá því í gær að Samtök atvinnulífsins væru reiðubúin að fallast á afturvirkni samninga ef samið yrði á skynsamlegum nótum fyrir mánaðamót.
„Það liggur alveg fyrir að íslenskt verkafólk afsalar sér ekki verkfallsrétti fyrir afturvirkni eins og er fólgið í tilboði SA. Ef það næst kjarasamningur fyrir mánaðamót þá segir það sig sjálft að hann myndi gilda frá 1. janúar. Ef það dregst lengur að semja verður það að koma í ljós en afturvirkni er skýlaus krafa af okkar hálfu,“ segir Vilhjálmur.
Deiluaðilar hittust í annað sinn hjá ríkissáttasemjara í gær en ekki var rætt sérstaklega um afturvirkni. Vilhjálmur bendir á að aðilar hafi fundað sjö sinnum áður en þeir komu að borði sáttasemjara. „Þannig vitum við nokkurn veginn hvar við stöndum gagnvart hver öðrum að öðru leyti en því að við höfum ekki fengið svar við þeirri veigamiklu spurningu sem lýtur að kröfum okkar til launaliðarins. Það varð niðurstaða þessa fundar að þau svör fengjust á næsta fundi,“ segir Vilhjálmur.
Á fundi hjá ríkissáttasemjara í næstu viku á loks að ræða launaliðinn. Vilhjálmur segir ljóst að þá skýrist línur varðandi framhaldið. „Þá sjáum við hvort við erum að leggjast upp að bryggju eða séum að stefna út á haf.“ Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að á fundinum í næstu viku muni verkalýðshreyfingin koma með kostnaðarmat á kröfugerðir sínar. „Það er löngu tímabært að fá kostnaðarmat á kröfugerðirnar og ég fagna því. Við höfum kallað eftir því frá því þær komu fram.“ segir Halldór í samtali við Fréttablaðið.