Ef kröfuhafar fjölmiðla geta haft áhrif á ritstjórn miðilsins og efnistök þá má telja það sjálfsagða kröfu almennings, sem notar efni fjölmiðilsins, að fá upplýsingar þar að lútandi. Þetta kemur fram í svari Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Smára McCarthy, þingmanns Pírata, um eignarhald fjölmiðla sem birt var í dag.
Smári spurði ráðherrann meðal annars að því hvort hún teldi nauðsynlegt að fjölmiðlar upplýstu um helstu kröfuhafa sína, eða um raunveruleg yfirráð yfir fjölmiðli og hvort að það samrýmdist anda fjölmiðlalaga að ekki væri upplýst um helstu kröfuhafa miðla.
Smári spurði Lilju einnig hvort fjölmiðlanefnd hefði einhvern tímann kallað eftir gögnum frá forsvarsmönnum fjölmiðils sem sýndu fram á hver færi með raunveruleg yfirráð hans. Í svari Lilju segir að samkvæmt upplýsingum sem aflað hafi verið hjá fjölmiðlanefnd hafi nefndin kallað eftir gögnum frá forsvarsmönnum fjölmiðla, til dæmis hluthafasamkomulögum og lánasamningum sem gætu haft áhrif á yfirráð fjölmiðils. „Í þeim tilvikum sem slíkra gagna hefur verið óskað hafa fjölmiðlaveitur upplýst að samningar feli ekki í sér nein frávik frá þeim reglum sem gildi almennt um stjórnun fyrirtækjanna samkvæmt hlutafélagalöggjöf.“
Huldulán til fjölmiðlafyrirtækis
Áhrif kröfuhafa fjölmiðla á þá var til umfjöllunar í fjölmiðlum landsins í fyrrahaust vegna fyrirtækisins Frjálsrar fjölmiðlunar. Það keypti síðla árs 2017 DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN hefur síðan verið sett í þrot.
Eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er félagið Dalsdalur ehf. Eini skráði eigandi þess er Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem er einnig skráður fyrirsvarsmaður Frjálsrar fjölmiðlunar hjá Fjölmiðlanefnd.
Skuldir Frjálsrar fjölmiðlunar voru 542 milljónir króna í lok árs 2017. Þar munar mest um 425 milljón króna skuld við eigandann, Dalsdal ehf. Sú skuld, sem virðist vaxtalaus, á að greiðast til baka á árunum 2018 til 2022, 85 milljónir króna á ári. Ekki kom fram í ársreikningi Dalsdals ehf. hver lánaði því félagi fjármagn til að lána Frjálsri fjölmiðlun en þar segir að Dalsdalur ætti að greiða þeim aðila alla upphæðina til baka á síðara ári, þ.e. 2018.
Stundin greindi frá því 4. október síðastliðinn að Sigurður G. vildi ekki greina frá því hver hefði veitt 425 milljóna króna lánið til Dalsdals. Þar sagði hann enn fremur að það skiptu „akkúrat engu máli“ að gera upplýsingar um endanlega eign á fjölmiðlum og hagsmunatengsl opinberar.
Hlutafé Frjálsrar fjölmiðlunar var aukið tvívegis á árinu 2018, samtals um 120 milljónir króna. Félag Sigurðar G., Dalsdalur, er enn skráð sem eigandi að öllu hlutafé Frjálsrar fjölmiðlunar.