Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir er á meðal þeirra sem bjóða sig fram í stjórn almenningshlutafélagsins Haga á hluthafafundi félagsins sem haldin verður 18. janúar næstkomandi. Hann er einn sjö aðila sem bjóða sig fram til setu í fimm manna stjórn.
Jón Ásgeir er ekki á meðal þeirra sem tilnefningarnefnd Haga mælir með að verði kosin í stjórnina. Hún leggur til að Davíð Harðarson, Eiríkur S. Jóhannsson, Erna Gísladóttir, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Stefán Árni Auðólfsson verði kosin í stjórn félagsins. Þetta er í fyrsta sinn sem tilnefningarnefnd Haga leggur fram tillögur um stjórnarmenn en hún tók til starfa í fyrrahaust.
Talsvert verður um endurnýjun í stjórninni en Kristín Friðgeirsdóttir formaður stjórnar Haga og Sigurður Arnar Sigurðsson varaformaður stjórnar höfðu upplýst um að þau ætluðu ekki að gefa kost á sér til endurkjörs.
Kjarninn fjallaði ítarlega um endurkomu hjónanna inn í hluthafahóp Haga í fréttaskýringu fyrir tæpum tveimur árum síðan. Hana má lesa hér.
Á undanförnum árum hafa félög í eigu eiginkonu Jóns Ásgeirs, Ingibjargar Pálmadóttur, keypt hluti í Högum. Félagið 365 miðlar, sem er í hennar eigu, á til að mynda 2,76 prósent hlut í félaginu. Stærstu eigendur Haga eru íslenskir lífeyrissjóðir. Gildi lífeyrissjóður á 12,5 prósent hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 9,95 prósent og Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 8,3 prósent. Þá á sjávarútvegsrisinn Samherji 9,26 prósent hlut í Högum.
Jón Ásgeir var ákærður í Aurum-málinu svokallaða en sýknaður í Landsréttir í því í október 2018. Hæstiréttur synjaði ákæruvaldinu um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar um miðjan desember síðastliðinn. Skömmu síðar skrifaði Jón Ásgeir grein í Fréttablaðið, sem er í eigu eiginkonu hans. Þar sagði hann meðal annars að það væri erfitt að lenda í klóm ákæruvalds. „Maður upplifir sig smáan í samanburði við þá sem hafa allt valdið og alla sjóði ríkisins á bak við sig. Ég upplifði þá mörgu menn sem rannsökuðu og sóttu málin á hendur mér síðustu 16 árin þannig að þeir hefðu engan áhuga á að heyra eðlilegar skýringar á atvikum. Öll mál voru rannsökuð eins og sekt væri fyrirfram gefin niðurstaða.“