Karl Gauti Hjaltason, sem var rekinn úr Flokk fólksins síðla árs í fyrra, segir að hann hafi margítrekað látið gagnrýni sína á getu Ingu Sæland, formann flokksins, til að leiða Flokk fólksins í ljós, áður en að slík gagnrýni náðist á upptöku á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn.
Það hafði hann gert beint við formanninn, á vettvangi þingflokks og í stjórn Flokks fólksins, þar sem hann hafði verið kjörinn með flestum atkvæðum allra stjórnarmanna á landsfundi í september. „Ég tel ekki forsvaranlegt að formaður stjórnmálaflokks sitji yfir fjárreiðum hans með því að vera jafnframt prókúruhafi og gjaldkeri flokksins. Þá get ég heldur ekki sætt mig við að opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga. Landslög kveða skýrt á um vandaða meðferð þeirra fjármuna sem stjórnmálaflokkar þiggja úr almannasjóðum og er mikilvægt að eftir þeim sé farið.“
Þetta kemur fram í grein sem Karl Gauti skrifar í Morgunblaðið í dag.
Þar minnist hann einnig á Klausturmálið og segist hafa setið „undir orðræðu sem spannst í hópi samstarfsmanna og ratað hefur í fjölmiðla. Ég hef beðist afsökunar á þeim mistökum að sitja of lengi undir þessum umræðum.“
Flokkur fólksins fær um 45 milljónir króna á ári úr ríkissjóði eftir að framlög þaðan til stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á þingi voru aukin um 127 prósent fyrir rúmu ári síðan.
Telur sig ekki hafa sagt neitt siðferðislega ámælisvert
Karli Gauta og Ólafi Ísleifssyni var vísað úr Flokki fólksins 30. nóvember síðastliðinn eftir að þeir sátu á fundinum á Klausturbar með þingmönnum Miðflokksins, þeim Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Bergþóri Ólasyni, Gunnari Braga Sveinssyni og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur þar sem ýmist afar niðrandi ummæli voru látin falla um meðal annars aðra stjórnmálamenn, konur, samkynheigða og fatlaða. Þeir sitja nú báðir sem óháðir þingmenn utan flokka.
Karl Gauti hafði áður sent frá sér tilkynningu, þann 1. desember 2018, þar sem hann sagðist ekki hafa sagt neitt siðferðislega ámælisvert á fundinum en að honum þyki leiðinlegt að hafa setið fundinn á Klaustri of lengi. Auk þess hélt hann því þar fram að fjölmiðlar hefðu haft rangt eftir honum af upptökum af fundinum.
Í umfjöllun DV um Klausturfundinn, þar sem Karl Gauti kom við sögu, sagði meðal annars: „Þá bar Ingu Sæland oft á góma og hún sögð hafa „grenjað“ sig inn á þing. Þá sagði Karl Gauti Hjaltason þingmaður Flokks fólksins: „Ólafur er örugglega sammála mér að Inga Sæland getur þetta ekki.“
Þá hefur Karl Gauti haldið því fram að fjölmiðlar hafi ranglega eignað honum setningu úr upptökunni á Klausturbar. Þar á hann við frétt Stundarinnar þar sem Karl Gauti er sagður hafa kallað Eygló Harðardóttur, fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra „galna kerlingarklessu.“ í samtali á Klausturbar þann 20. nóvember. Karl Gauti hefur sagt að fjölmiðlar hafi farið mannavillt þar sem hann hafi hlustað á upptökuna sjálfur og telur að þetta séu ekki hans orð né hans rödd sem tali.