Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fundar með formönnum þingflokka í dag en þar verður Klausturmálið, og ráðstafanir vegna þess, meðal annars á dagskrá. Hann segir að viðfangsefnið sé að koma málinu í réttan farveg svo það geti gengið sína leið. Þetta kemur fram í frétt Mbl.is í dag.
Jafnframt segir í fréttinni að á fundi forsætisnefndar í gær hafi mögulegar laga- og reglubreytingar verið ræddar til þess að málið komist í farveg og verði sú umræða tekin áfram á fundi þingflokksformanna í dag.
Steingrímur segir málið raunar ekki mjög flókið. Þetta snúist um að málið geti gengið rétta boðleið til siðanefndar. „Það er líklegasta leiðin og sú sem til stóð, en strandaði á vanhæfi forsætisnefndar. Verkefnið er að leysa úr þessu,“ segir hann í samtali við Mbl.is.
Hann segir enn fremur að menn vilji líklega ræða þetta innan þingflokkanna, sem flestir funda á miðvikudögum. Málið verði því í vinnslu í vikunni.