Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann kannist ekki við að pólitísk hrossakaup hafi átt að eiga sér stað vegna skipan sendiherra sem leiða ætti til þess að Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmaður Miðflokksins, fengi slíka stöðu.
Þetta kom fram í máli hans þegar Bjarni kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á opnum fundi í dag.
Bjarni sagðist kannast við að Gunnar Bragi hefði komið fram áhuga sínum um að starfa í utanríkisþjónustunni. Hann kannaðist líka við að hafa setið fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra síðla hausts 2018 þar sem Sigmundur Davíð kom á framfæri áhuga Gunnars Braga. Á fundinum hafi Guðlaugur Þór komið fram þeirri skoðun sinni að hann vildi frekar fækka sendiherrum en fjölga þeim.
Gæti vel verið að Bjarni hafi lagt til fundinn
Bjarni sagði að hann og Sigmundur Davíð hefðu átt í einhverjum samskiptum áður en að fundurinn með Guðlaugi Þór fór fram. Hann man ekki hvor þeirra lagði til að þeir myndu hittast með utanríkisráðherra, og það gæti vel verið að það hafi verið hann. Tilgangurinn hafi verið að fá það beint frá utanríkisráðherranum hver staðan varðandi sendiherrastöður væri og hans hlutverk hafi verið að leiða menn saman.
Bjarni var einnig spurður hvort það væri algengt að samtöl af þessu tagi ættu sér stað. Hann sagði að hann grunaði að það væri mjög algengt að utanríkisráðherrar fái beiðnir af þessu tagi. „Ég hef sjálfur einhverja reynslu af því.“
Bjarni sagði að það mætti alveg velta því fyrir sér hvort að auka þyrfti formkröfur til sendiherra sem skipaðir væru. Hann væri þó sjálfur þeirrar skoðunar að margir fyrrverandi þingmenn sem skipaðir hefðu verið sendiherrar væri „mjög vel til þess fallnir að taka að sér verkefnin sem felast í sendiherrastöðunum.“
Bjarni taldi það þó ekki til bætingar að fella skipan sendiherra inn í umsóknarferli með aðkomu hæfisnefnda. Það væri meira unnið með því að utanríkisráðherra mætti í þingið og gerði grein fyrir skipun sendiherra þegar slík yrði gerð og að þingið þyrfti jafnvel að samþykkja hana, líkt og gert er víða annars staðar.
Enginn þrýsti á utanríkisráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kom einnig fyrir nefndina og svaraði að öllu leyti efnislega með sama hætti og Bjarni um tildrög fundarins með Sigmundi Davíð og það sem fram fór á honum. Guðlaugur Þór benti á að hann hefði ekki skipað einn einasta sendiherra frá því að hann tók við ráðuneytinu.
Í samtölum Gunnars Braga og Sigmundar Davíð á Klausturbar var ýjað að því að Guðlaugi Þór bæri að gjalda þeim greiða þegar hann tók við sem utanríkisráðherra. „Það var bara ekki þannig,“ sagði utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór sagði enn fremur að engin hafi þrýst á hann að skipa Gunnar Braga sem sendiherra. Bjarni Benediktsson hafi aldrei skipað honum að gera nokkurn skapaðan hlut á meðan að samskiptum þeirra hefur staðið, en þau teygja sig aftur um áratugi.
Mættu hvorugir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson mættu hvorugir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Í upphafi fundar voru lesnar yfirlýsingar frá þeim báðum. Gunnar Bragi sagði í henni að tilefni fundarins væri ólögmælt hljóðritun af ummælum sem hann hefði látið falla í trúnaðarspjalli á veitingastað í borginni.
yfirlýsingu Sigmundar Davíðs sagði hann óforsvaranlegt hjá formanni nefndarinnar að halda fund um óljósar ásakanir. Hann sagði enga viðhlítandi rannsókn hafa farið fram á því af hverju farið var í hljóðupptökurnar af viðræðunum á Klausturbar 20. nóvember og hvort þær hafi verið klipptar til.
Því væri enginn siðferðislegur grundvöllur fyrir þeirri umræðu sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Helga Vala Helgadóttir, boðað til. Þess vegna myndi hann ekki mæta á fundinn.