Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, rithöfund, Báru Huld Beck, blaðamann Kjarnans, og Steinunni Stefánsdóttur, þýðanda og fyrrverandi aðstoðarritstjóra, hlaut Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlauna kvenna árið 2019 í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða í dag klukkan 15.
Í rökstuðningi dómnefndar fyrir tilnefningu kemur fram að bókin sé frábært framtak í heimi þar sem brýnt er að standa vörð um tjáningarfrelsið, í veröld þar sem afskipti stjórnmálaafla og eignarhald á fjölmiðlum getur leitt til hagsmunaárekstra.
„Bókin er safn viðtala við fólk sem tengist fjölmiðlum á einn eða annan máta. Útkoman er fjölbreytt umfjöllun um þá, auk þess sem áhrif samfélagsmiðla, persónuverndar, pólitíkur og peninga eru skoðuð. Þjáningarfrelsið tekur fyrir hin ýmsu mál út frá ólíkum viðmælendum en eiga það sameiginlegt að hafa verið á milli tannanna á Íslendingum. Allt frá gömlum málum til atburða sem gerast rétt áður en bókin fer í prentun. Þjáningafrelsið er ekki bók sem leitar lausna en lesandi er vissulega fróðari eftir lesturinn. Bókin skilur eftir sig spurningar, hugmyndir og vangaveltur um samfélagið og öruggt er að bókin verður góð heimild í framtíðinni til að skoða stöðu fjölmiðla og tjáningarfrelsis á Íslandi í upphafi 21. aldarinnar,“ segir í rökstuðningnum.
Í flokki barna- og unglingabókmennta hlaut Kristín Helga Gunnarsdóttir verðlaunin fyrir bók sína Fíasól gefst aldrei upp.
Í flokki fagurbókmennta féllu verðlaunin í skaut Guðrúnar Evu Mínervudóttur fyrir skáldsögu hennar Ástin, Texas.
Á vefsíðu Fjöruverðlaunanna segir að tilgangur þeirra sé að stuðla að aukinni kynningu á ritverkum kvenna og hvetja konur í rithöfundastétt til dáða. Verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan.
Hugmyndin að Fjöruverðlaununum kviknaði árið 2006 innan grasrótarhóps kvenna í Rithöfundasambandi Íslands og Hagþenki. Meðal ástæðna þess að hópurinn taldi sérstök kvennaverðlaun nauðsynleg var ójöfn kynjaskipting handhafa Íslensku bókmenntaverðlaunanna en á tímabilinu 1989 til 2011 fengu 36 karlar og 11 konur verðlaun.
„Gildi sérstakra bókmenntaverðlauna fyrir konur hefur greinilega komið í ljós í Bretlandi þar sem Baileys-kvennabókmenntaverðlaunin (áður Orange-kvennabókmenntaverðlaunin) hafa verið veitt í tæpa tvo áratugi. Stofnað var til þeirra vegna óánægju með hlut kvenna við úthlutun bókmenntaverðlauna og hefur starf þeirra verið farsælt og vakið athygli á fjölmörgum kvenrithöfundum sem skrifa á ensku,“ segir á vefsíðu verðlaunanna.
Árið 2011 voru í fyrsta sinn kynntar tilnefningar til Fjöruverðlaunanna áður en til sjálfrar verðlaunaafhendingarinnar kom og síðan þá hafa þrjár bækur verið tilnefndar í hverjum flokki í desember ár hvert. Þetta var gert til að enn fleiri góðar bækur eftir konur fengju verðskuldaða athygli og auka líkur á að fjölmiðlar fjölluðu um bækurnar og verðlaunin.
Árið 2014 var borgarstjóri Reykjavíkur – bókmenntarborgar UNESCO skipaður formlegur verndari verðlaunanna.