Bryndísi Kristjánsdóttur, skattrannsóknarstjóra ríkisins, segir að sér hafi margsinnis verið hótað og þá hafi reynt að múta henni í starfi. Starfsmönnum embættisins hefur einnig oftar en einu sinni verið hótað sem og stofnuninni sem slíkri hefur meðal annars verið hótað pólitískum afskiptum í einstaka málum. Skattrannsóknarstjóri segir þetta hluta af starfinu og að þetta hafi engin áhrif á það hvernig tekið sé á málum innan stofnunarinnar. Þetta kemur fram í viðtali við Bryndísi í ViðskiptaMogganum í dag.
Stofnuninni hótað pólitískum afskiptum í einstaka málum
Í viðtalinu segir Bryndís starf skattrannsóknastjóra vera áhugavert en snúið en hún tók við embættinu árið 2007. Henni hefur verið hótað oftar en einu sinni og tilraunir hafa verið gerðar til að múta henni sem og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar. „Ég hef fengið hótanir og það hefur líka verið reynt að múta mér. Það eru dæmi um það. Þeir sem sæta rannsókn koma ekki sjálfviljugir hingað. Það er allt undir. Allir þínir peningar, fjármunir og þetta reynir auðvitað á alla. Fjölskyldu og maka og tekur oft langan tíma. Við reynum að vera meðvituð um þetta.“
Þá hefur öðrum starfsmönnum embættisins einnig verið hótað og í einu tilfelli var til að mynda ættingjum starfsmanns hótað atvinnumissi. Bryndís segir að sér hafi þótt það svolítið langt gengið en oft sé erfitt með sönnun í svona málum þar sem fólki er hótað þar sem hótanirnar séu sjaldnast settar fram í viðurvist vitna.
„En stofnuninni sem slíkri hefur verið hótað, og okkur hefur verið hótað pólitískum afskiptum í einstökum málum. Ég er ekki að segja að það hafi átt sér stað. En því hefur verið hótað,“ segir Bryndís.
Bryndís segir einnig frá í einu atviki í viðtalinu þar sem reynt var að múta henni með því bjóða henni að drekka frítt á bar niðri í bæ í heilt ár gegn því að tiltekið mál yrði fellt niður. „Þetta er náttúrlega bara hluti af þessu starfi. Það er auðvitað mitt starf og okkar hérna að láta þetta ekkert á okkur fá. Þetta hefur engin áhrif á það hvernig við tökum á málum og hvort við tökum á málum eða ekki. ,“ segir Bryndís en hún hefur staðið í þeirri stóru hringiðu mála sem fylgdu hruninu.
Keyptu gögn sem tengdu Íslendinga við skattaskjól
Bryndís Kristjánsdóttir segir einnig frá því í viðtalinu hvernig þær gríðarlegar breytingar sem urðu í alþjóðlegri skattasamvinnu eftir fjármálahrunið 2008 hafi gjörbreytt umhverfi til skattrannsókna. Bryndís segir að aldrei hafi mætt meira á embættinu en á árunum eftir hrun. Sérstaklega í tengslum við leka á borð við Panama-skjölin en Bryndís stóð í forsvari þegar íslenska ríkið ákvað að veita skattrannsóknarstjóra fjármagn til kaupa á gögnum sem tengdu Íslendinga við skattaskjól.
Það vakti mikla athygli þegar embætti skattrannsóknarstjóra festi kaup á gögnum sem tengdu Íslendinga við skattaskjól en um 500 félög var að ræða sem 400 Íslendingar áttu. „Það sem kannski var sérstakt við þessi gögn var hvað þetta var mikið. Hvað Ísland var stórt í þessum grunni í öllum skilningi. Hins vegar var þetta ekki í fyrsta skiptið og ekki í síðasta skiptið sem skattrannsóknarstjóra hafa verið boðin til kaups ýmiss konar gögn. Það hefur gerst áður og síðar, en það var þetta mikla magn sem vakti spurningar um það hvort það væri ástæða til það kaupa þessi gögn, “ segir Bryndís í viðtalinu.
Bryndís segir að spurningar sem vöknuðu hafi ekki síst verið siðferðislegar. „Vilja menn taka þetta skref eða vilja menn það ekki? Það hefði verið gott ef það hefði farið fram einhver heildstæð umræða um það. Vegna þess að þetta er stór spurning. Mitt siðferði, af eða á, á ekki að vera það sem sker úr. Þó að ég hafi á endanum mælt með þessum kaupum þá er þetta stór spurning og ég myndi aldrei gera lítið úr henni.“
Aðspurð segir Bryndís að embættið myndi eflaust kaupa svona göng aftur. „En það væri æskilegt að hafa eitthvert ferli um þetta. Af því að þetta eru stórar spurningar. Eins og með siðferðið. Það hafa allir sína skoðun á því. Síðan er það þessi umræða um uppljóstrara sem hefur heyrst undanfarin misseri. Það er þörf fyrir reglur um þá. Það hafa flest vestræn ríki sett sér ákveðnar reglur um það. Ef við viljum taka þetta skref, sem við erum kannski búin að taka þurfum við líka að tryggja ákveðna umgjörð í kringum það mál.“
Meiri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir innan skattkerfisins
Í viðtalinu kemur fram að undanfarna þrjá áratugi hafi umfang skattsvika verið metið á bilinu 3 til 7 prósent af landsframleiðslu. það eru um 10 prósent af heildartekjum hins opinbera. Bryndís segir þó allar slíkar tölur velta á þeim forsendum sem gefnar eru. Hún segir að um hríð hafi embættið haft áhyggjur af innskattsvikum, meðal annar í byggingarstarfsemi. Þá sé um svokölluð keðjumál að ræða þar sem rekin eru umfangsmikil skattsvik til undanskota undirverktaka þar sem fyrirtæki nýti sé glufur í virðisaukaskattkerfinu. Hún segir að ríkissjóður verði af verulegum fjármunum vegna þessa og bætir við fólk sé í auknum mæli að setja upp tilhæfulausa starfsemi til þess að fá fjármuni greidda úr ríkissjóð.
Að sögn Bryndísar þarf embætti skattrannsóknarstjóra að vísa fjölda mála út af borðinu en aðeins þrjátíu manns starfa hjá stofnuninni. Hún segir að það muni aldrei verða nægur mannskapur til að rannsaka hvert einasta mál. Bryndís bendir að lokum á að huga þurfi meira að fyrirbyggjandi aðgerðum innan skattkerfisins, æskilegt væri að meiri áherslu sé lögð á greiningarvinnu og fyrirbyggjandi þætti innan skattkerfisins.