Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir að þær konur sem urðu fyrir barðinu á tali þingmanna sem voru á Klausturbar 20. nóvember 2018 eigi ekki að þurfa að sitja undir þeim í þingstörfum.
Þingið hafi ríku eftirlitshlutverki að gegna, sem birtist meðal annars í samskiptum milli ráðherra og þingmanna vegna óundirbúinna fyrirspurna. „Maður veltir fyrir sér til dæmis í stöðu Lilju Alfreðsdóttur sem heldur betur varð fyrir barðinu á orðum þessa hóps. Að mínu áliti á hún ekki að þurfa að sitja undir fyrirspurnum frá þessu fólki. Mér finnst það bara hennar réttur að þurfa það ekki.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Helgu Völu í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur var á miðvikudagskvöld. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Helga Vala sagðist lítið vita um hvort og hvenær þeir þrír þingmenn sem eru í leyfi, þar á meðal einn samflokksmaður hennar í Samfylkingunni, muni snúa aftur. Ágúst Ólafur Ágústsson tilkynnti 7. desember að hann myndi fara í tveggja mánaða leyfi eftir að trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar veitti honum áminningu fyrir áreitni í garð konu. Hann er því ekki væntanlegur aftur til þingstarfa fyrr en í fyrsta lagi 7. febrúar.
Helga Vala segist halda að ekkert liggi fyrir um hina tvo, Miðflokksmennina Gunnar Braga Sveinsson og Bergþór Ólason. „Ég hef heyrt því fleygt að það náist ekki í þá. Ég set það fram án ábyrgðar og ég veit það ekki hvort það er rétt. Það gæti alveg eins verið kjaftasaga eins og hvað annað. Ég kem alltaf að sömu niðurstöðu. Sá sem tekur sæti á Alþingi hann þarf alltaf að kanna það hjá sjálfum sér hvort hann geti sinnt sínu starfi. Starfið okkar er mjög fjölbreytt. Við bæði tökum á móti fólki fyrir fastanefndunum og fáum allskonar fólk þangað til þess að svara spurningum og upplýsa okkur. Líka hagsmunaaðila sem eru þá að biðja okkur um eitthvað.“