Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir var ekki kjörin í stjórn almenningshlutafélagsins Haga á hluthafafundi félagsins sem haldinn var í dag. Hann var einn átta aðila sem buðu sig fram til setu í fimm manna stjórn.
Jón Ásgeir var ekki á meðal þeirra sem tilnefningarnefnd Haga mælti með að yrðu kosin í stjórnina. Hún lagði til að Davíð Harðarson, Eiríkur S. Jóhannsson, Erna Gísladóttir, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Stefán Árni Auðólfsson yrðu kosin í stjórn félagsins. Það gekk eftir, allir sem nefndin mælti með hlutu kjör í stjórnina. Erna Gísladóttir verður stjórnarformaður og Davíð Harðarson varaformaður stjórnar.
Þetta var í fyrsta sinn sem tilnefningarnefnd Haga lagði fram tillögur um stjórnarmenn en hún tók til starfa í fyrrahaust.
Stærstu eigendur Haga eru Gildi lífeyrissjóður (12,5 prósent), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (9,95 prósent), Samherji (9,26 prósent) og Lífeyrissjóður verslunarmanna (8,3 prósent).
Talsvert var um endurnýjun í stjórninni en Kristín Friðgeirsdóttir formaður stjórnar Haga og Sigurður Arnar Sigurðsson varaformaður stjórnar höfðu upplýst um að þau ætluðu ekki að gefa kost á sér til endurkjörs.
Hagar er stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi. Krúnudjásn félagsins eru Bónusverslanirnar, sem eru með stærstu markaðshlutdeild í dagvöru á Íslandi. Jón Ásgeir og faðir hans Jóhannes Jónsson stofnuðu Bónus árið 1989 en misstu Haga úr höndum eftir hrunið og gjaldþrot Baugs Group, fjárfestingafélags fjölskyldunnar.
Kjarninn fjallaði ítarlega um endurkomu hjónanna inn í hluthafahóp Haga í fréttaskýringu fyrir tæpum tveimur árum síðan. Hana má lesa hér.
Á undanförnum árum hafa félög í eigu eiginkonu Jóns Ásgeirs, Ingibjargar Pálmadóttur, keypt hluti í Högum. Félagið 365 miðlar, sem er í hennar eigu, á til að mynda 2,76 prósent hlut í félaginu. Stærstu eigendur Haga eru íslenskir lífeyrissjóðir. Gildi lífeyrissjóður á 12,5 prósent hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 9,95 prósent og Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 8,3 prósent. Þá á sjávarútvegsrisinn Samherji 9,26 prósent hlut í Högum.
Jón Ásgeir var ákærður í Aurum-málinu svokallaða en sýknaður í Landsréttir í því í október 2018. Hæstiréttur synjaði ákæruvaldinu um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar um miðjan desember síðastliðinn. Skömmu síðar skrifaði Jón Ásgeir grein í Fréttablaðið, sem er í eigu eiginkonu hans. Þar sagði hann meðal annars að það væri erfitt að lenda í klóm ákæruvalds. „Maður upplifir sig smáan í samanburði við þá sem hafa allt valdið og alla sjóði ríkisins á bak við sig. Ég upplifði þá mörgu menn sem rannsökuðu og sóttu málin á hendur mér síðustu 16 árin þannig að þeir hefðu engan áhuga á að heyra eðlilegar skýringar á atvikum. Öll mál voru rannsökuð eins og sekt væri fyrirfram gefin niðurstaða.“
Fréttin verður uppfærð.