Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, segir í yfirlýsingu í Fréttablaðinu í dag, að sögusagnir og ásakanir á hendur honum, um brot gegn konum og kynferðislega áreitni hans, séu ýmist „hreinn uppspuni“ eða „skrumskæling á veruleikanum“.
Hann segir elstu dóttur hans og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, Aldísi Schram, glíma við geðræn vandamál og að ásakanir hennar og annarra kvenna megi rekja til þess.
Hann segist sjálfur bera þunga sök á því að hafa valdið langvarandi ósætti innan fjölskyldu Bryndísar. „Sjálfur ber ég þunga sök af því að hafa valdið langvarandi ósætti innan fjölskyldu Bryndísar. Bréfaskipti mín við Guðrúnu Harðardóttur, systurdóttur Bryndísar, þegar hún var 17 ára, voru hvort tveggja með öllu óviðeigandi og ámælisverð. Á því hef ég beðist margfaldlega afsökunar, bæði Guðrúnu sjálfa og fjölskyldu hennar, sem og opinberlega. Ég hef leitað eftir fyrirgefningu, en án árangurs. Á þessu máli ber ég einn ábyrgð – og enginn annar,“ segi Jón Baldvin í grein sinni. Hann hafnar öðrum ásökunum, meðal annars að hafa brotið gegn Guðrúnu á barnsaldri, og segir það úr lausu lofti gripið.
Þá gagnrýnir hann fjölmiðla fyrir að nýta sér „fjölskylduharmleik“ og kallar umfjöllun um málið sorp blaðamennsku. „Allar tilraunir til sátta, einnig með milligöngu sálusorgara og sérfræðinga, hafa engan árangur borið. Þetta er nógu sár lífsreynsla fyrir alla, sem hlut eiga að máli, þótt ekki bætist við, að fjölmiðlar vilji velta sér upp úr ógæfu annarra með því að lepja upp einhliða og óstaðfestan óhróður, að óathuguðu máli. Það er satt að segja hreinn níðingsskapur að færa sér í nyt fjölskylduharmleik eins og þann, sem við höfum mátt búa við í áratugi, til þess að ræna fólk mannorðinu, í skjóli þess að vörnum verði vart við komið. Það verður hvorki réttlætt með sannleiksást né réttlætiskennd. Það er ekki rannsóknarblaðamennska. Það er sorp-blaðamennska.“
Aldís Schram segir föður sinn hafa nýtt bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Með því hafi hann misnotað stöðu sína sem sendiherra til þess að reka persónuleg erindi. Frá þessu greinir Aldís í Morgunútvarpinu á Rás 2 17. janúar síðastliðinn.
Jón Baldvin var utanríkisráðherra árin 1988 til 1995 og sendiherra í Bandaríkjunum 1998 til 2002 og í Finnlandi 2002 til 2005. Fjórar konur greindu nýverið frá meintri kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins í Stundinni. Elstu sögurnar eru frá sjöunda áratug síðustu aldar en sú nýjasta frá því síðasta sumar. Þá hefur fjöldi kvenna gengið í #metoo hóp á Facebook þar sem frekari sögur af kynferðisbrotum hans og ósæmilegri háttsemi hafa komið fram.
Aldís segist hafa gengið á föður sinn árið 1992 vegna kynferðisbrota eftir að gömul skólasystir hennar hafði sagt Aldísi frá því að hún hefði vaknað við að Jón Baldvin væri að áreita hana kynferðislega. Aldís telur að sá fundur hafi orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild.
Aldís sagði að eftir þetta hafi hann getað hringt í lögreglu hvenær sem er til að handtaka hana. „Umsvifalaust er ég í járnum farið með mig upp á geðdeild, ég fæ ekki viðtal og það er skrautlegt að lesa þessar yfirlýsingar geðlækna. Það er um einhverjar ímyndanir mínar og ranghugmyndir sem ég er með þegar ég er reið út í föður minn,“ sagði hún.