Í dag eru tíu ár frá því að Demókratinn Barack Obama tók við stjórnartaumunum sem forseti Bandaríkjanna. Hann var fyrsti svarti forsetinn í sögu landsins. Hann sigraði kosningarnar 2008 og 2012 og var forseti í átta ár, eins lengi og forseti getur setið.
Aretha Franklin, söngkona og baráttukona fyrir mannréttindum svartra og kvenna í áratugi, söng við innsetningarathöfnina og líta margir til þeirrar stundar, sem hápunkts í mannréttindasögu svartra í Bandaríkjunum. Aretha fæddist í Memphis 1942 en lést 18. ágúst í fyrra, í heimaborg sinni Detroit.
Aðstæður í landinu voru um margt sérkennilegar þegar Obama tók við, þar sem Bandaríkin voru í djúpri efnahagslægð kjölfar hruns á fjármálamörkuðum, en kreppan á árinu 2007 til 2009 var versta efnahagshrun sem Bandaríkin - og raunar heimurinn allur - höfðu gengið í gegnum frá Kreppunni miklu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.
Atvinnuleysi var á hraðri uppleið og fór að hæst í rúmlega 11 prósent, að meðaltali. Mörg svæði í Bandaríkjunum upplifðu hins vegar mun verri dýfu. Þetta markaði fyrstu árin í forsetatíð Obama, en á þeim átta árum sem hann var forseti batnaði efnahagur landsins mikið, og hefur hann sjálfur talað um það sem sitt mesta afrek, að hafa náð að afstýra, í samvinnu við Seðlabanka Bandaríkjanna, meiri vandamálum.
Óhætt er að segja önnur tíð sé nú uppi á hinu pólitíska sviði, en Repúblikaninn Donald Trump hefur haft það sem yfirlýsta stefnu, í mörgum málum, að reyna að afstýra mörgu því sem Obama kom til leiðar. Sérstaklega hefur það verið sýnilegt í utanríkisstefnu landsins og stefnu í heilbrigðismálum, en margt annað má telja til.
Staða efnahagsmála í Bandaríkjunum þykir hins vegar nokkuð góð. Atvinnuleysi er minnsta móti, eða um 4 prósent, og hagvöxtur hefur verið viðvarandi 2 til 3 prósent á ári. Vextir Seðlabankans hafa hækkað á undanförnu ári og eru nú 2,25 prósent.
Obama hefur á undanförnu ári blandað sér meira í bandarísk stjórnmál, með fundum og skrifum á opinberum vettvangi, og talað fyrir því að Demókratar nái vopnum sínum til að getað unnið Donald Trump í kosningunum 2020.