Stjórn Landverndar mótmælir harðlega málflutningi sem fram kemur í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hvalveiðar. Stjórnin skorar á Hagfræðistofnun að draga skýrsluna til baka og vinna hana upp á nýtt í samráði við vistfræðinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum sem þau sendu frá sér í dag.
„Í fyrsta lagi eru þær forsendur sem skýrsluhöfundur gefur sér í útreikningum sínum af vistfræðilegum toga og þar með langt utan hans fagsviðs. Margir vistfræðingar telja þessar forsendur úreltar,“ segir í tilkynningunni.
Í öðru lagi nefnir Landvernd að fráleitt sé að spyrða saman náttúruverndarsamtök og hryðjuverk almennt og ekki síst í „faglegri“ skýrslu sem fjallar um hvalveiðar, hvað þá að hvetja til lagasetningar um hryðjuverk í samhengi við baráttu fyrir verndun umhverfisins. Raunveruleg hryðjuverk beinist að því að drepa almenna borgara í þágu tiltekins málstaðar. Barátta náttúruverndarsamtaka sé friðsamleg.
Í þriðja lagi sé sú ógn sem að steðjar vegna rányrkju manna raunveruleg og þessi ógn kristallist í baráttu náttúruverndarsamtaka fyrir verndun hvala.
Í skýrslunni segir að milliríkjaviðskipti og hagkvæm nýting náttúruauðlinda skipti miklu máli fyrir velferð íslensku þjóðarinnar. Nýta þurfi náttúruauðlindir á ábyrgan hátt þannig að tryggt sé að nýtingin sé sjálfbær. Íslendingar hafi stundað hvalveiðar af ábyrgð frá því að þær hófust að marki árið 1935. Stærð stofna hafi verið metin ásamt veiðiþoli þeirra. Þeir stofnar sem standa illa hafi verið friðaðir. Íslendingar hafi verið meðal fyrstu hvalveiðiþjóða í heiminum til að banna veiðar á hnúfubak og steypireyði.
„Virðisauki af hvalveiðum og hvalaskoðun lýsir beinum áhrifum starfseminnar á íslenskt efnahagslíf. Í virðisaukanum eru bæði laun og arður eigenda fyrirtækjanna. Óbein áhrif af starfseminni geta komið fram með margvíslegum hætti. Hvalveiðar geta til dæmis haft áhrif á stærð fiskistofna. Hvalveiðar valda öðrum hughrifum hjá mörgum en veiðar á öðrum dýrum. Þær geta haft áhrif á áhuga fólks á að eiga viðskipti við hvalveiðiþjóðir, en andstaða við veiðarnar þarf að vera almenn ef hún á að rýra afkomu íslenskra fyrirtækja, til dæmis í sjávarútvegi. Í skýrslunni er meðal annars rætt um áhrif hvalveiða á tekjur Íslendinga af erlendum ferðamönnum,“ segir í skýrslunni.
Jafnframt kemur fram að þegar allt sé skoðað virðist hvalveiðar vera hluti af hagkvæmri nýtingu náttúruauðlinda landsmanna. Rök hnígi til þess að hagkvæmt sé fyrir þjóðarhag að haldið verði áfram að veiða hvali. Skynsamlegt gæti einnig verið að skilgreina fleiri tegundir hvala sem nytjastofna.
„Hvalaskoðun er nýting á hvölum, engu síður en veiðar. Tímabært kann að vera að setja reglur um starfsemina til þess, til dæmis, að tryggja að hún trufli hvalina sem minnst og hafi ekki áhrif á fjölda þeirra á skoðunarsvæðum.“