Kauphöllin álítur að hagsmunum ríkissjóðs, heimila og fyrirtækja sé best borgið með því að stærstum hluta bankakerfisins sé komið í dreift eignarhald breiðs hóps fjárfesta. Að mati Kauphallarinnar væri besta leiðin til að tryggja dreift eignarhald nokkur útboð, yfir ákveðið árabil, sem beint væri bæði að innlendum og erlendum fjárfestum í aðdraganda og kjölfar skráningar á markað. Þetta kemur fram í umsögn Kauphallarinnar um Hvítbók um fjármálakerfið.
Hægt að ná aukinni samkeppni meðal banka með skráningu og sölu þeirra til dreifðs hóps fjárfesta
„Hvergi í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við á ríkið stóran hluta í bankakerfinu. Í þeim löndum sem ríkið hefur fengið banka í fangið í kjölfar áfalla hefur verið unnið að því að losa um það eignarhald. Líkt og í þeim löndum verður þó að gera ráð fyrir að það geti tekið nokkurn tíma. Til að hámarka verðmæti eignarhluta ríkisins er æskilegt að fyrir liggi skýr áætlun um sölu, markmið og leiðarlýsing á söluferlinu.“ segir í umsögn Kauphallarinnar.
Í umsögn kauphallarinnar segir að skráning bankanna á markað hafi margskonar kosti en með skráningunni er tryggð fylgni við reglur um sölumeðferð. Ákvæði laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum kveður á um að áhersla skuli lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Að mati Kauphallarinnar er útboð samhliða skráningu á markað eins opið og gagnsætt ferli og kostur er á. Með almennu útboði er leitað til stærsta mögulega mengis fjárfesta sem stuðlar að því að hámarksverð fáist fyrir þann eignarhlut sem er til sölu.
Kauphöllin segir að útboð og skráning Arion banka í Nasdaq kauphallirnar á Íslandi og í Stokkhólmi á síðastliðnu ári hafi tekist afskaplega vel og að það sé góð vísbending um hvers væri að vænta ef sama leið væri farin við sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum. Að mati Kauphallarinnar þyrfti sterk rök til þess að annari aðferðarfræði yrði beitt við sölu hluta í ríkisbönkunum tveimur.
Í Hvítbókinni er nefnt að bein sala á stórum eignarhlut til erlends fjármálafyrirtækis gæti stuðlað að aukinni samkeppni með tilheyrandi ábata fyrir neytendur og samfélagið í heild en að mati Kauphallarinnar mætti allt eins ná fram aukinni samkeppni meðal banka með skráningu og sölu þeirra til dreifðs og fjölbreytts hóps fjárfesta. Jafnframt segir í umsögninni að líklegt sé að skráning bankanna gæti aukið samkeppni í fjármálakerfinu í heild sinni.
Skráning bankanna forsenda þess að hlutabréfamarkaðurinn nái hæsta gæðaflokki
Í umsögninni segir að skráning beggja bankanna á íslenskan hlutabréfamarkað sé að öllum líkindum forsenda þess að hlutabréfamarkaðurinn nái í hæsta gæðaflokk alþjóðlegra vísitölufyrirtækja í náinni framtíð. Slík flokkun myndi styrkja til muna stöðu hlutabréfamarkaðar sem fjármögnunarvettvangs fyrir íslensk fyrirtæki, enda megi gera ráð fyrir því að hún hefði afgerandi áhrif á þátttöku erlendra fjárfesta á markaðnum.
Að lokum segir í umsögn Kauphallarinanr um Hvítbókina að ef farnar verði þær leiðir sem nefndar eru í Hvítbókinni til að efla íslenskan verðbréfamarkað, að teknu tilliti til framangreindra ábendinga Kauphallarinnar, ásamt sölu á hlutum í bönkunum og skráningu þeirra á hlutabréfamarkað, þá gæti það leitt til þess að íslenskur hlutabréfamarkaður yrði settur í flokk með þeim mörkuðum sem fremst standa áður en áratugur er liðinn.
Samkvæmt Kauphöllini gæti það haft í för með sér gerbreytta aðstöðu íslenskra fyrirtækja til fjármögnunar, sérstaklega meðal alþjóðlegra fjárfesta. Jafnframt gæti það aukið marktækt samkeppni í íslensku fjármálakerfi, samfélaginu öllu til heilla. Kauphöllin hvetur því til þess að tafarlaust verði ráðist í nánari útfærslu á framangreindum leiðum með það fyrir augum að setja fram aðgerðaáætlun um að koma íslenskum hlutabréfamarkaði í fremsta flokk á komandi árum.