Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður Vinstri grænna og Haraldur Bendiktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins voru kjörin varaforsetar forsætisnefndar Alþingis í dag. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins.
Þau munu nú að taka fyrir Klausturmálið en kosið var um málið á Alþingi fyrr í dag. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og allir varaforsetar úr hópi þingmanna, sögðu sig frá umfjöllun um Klausturmálið, vegna vanhæfis þann 17. desember síðastliðinn.
Steinunn Þóra og Haraldur voru útnefnd en farið var eftir því hvaða þingmenn væru óumdeilanlega hæfir til umfjöllunar um málið og hefðu hvorki tjáð sig um það í ræðu eða riti.
Auglýsing
Kosið var, eins og áður segir, um hvort útnefna ætti varaforsetana á Alþingi í dag og voru heitar umræður um málið á þingi, samkvæmt Fréttablaðinu. Þótti þingmönnum Miðflokksins, og tveimur óháðum þingmönnum, málið ekki standast lög.
Tillagan var samþykkt með 45 atkvæðum gegn 9.